Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:00:45 (7863)

2001-05-16 10:00:45# 126. lþ. 124.91 fundur 552#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þær fréttir eru að berast að varnaðarorð þau sem höfð voru í frammi hér af hálfu stjórnarandstöðunnar um frv. ríkisstjórnarinnar sem bannar verkfall sjómanna hafi átt við rök að styðjast, að frv. sé ekki einvörðungu mannréttindabrot heldur slíkt allsherjarklúður að ríkisstjórnin treystir sér ekki að fara fram með málið. Mér finnst nauðsynlegt nú í upphafi dags og í upphafi þingfundar að okkur verði gerð grein fyrir stöðu þessa máls og hvað ríkisstjórnin og sá stjórnarmeirihluti sem hún styðst við hér í þingsölum hyggst gera í þessu máli. Mér finnst mikilvægt að við fáum greinargóðar upplýsingar um hver staðan er, hvað fram hafi farið í hv. sjútvn. og hvaða áform ríkisstjórnin hefur um framvindu málsins.