Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:05:15 (7867)

2001-05-16 10:05:15# 126. lþ. 124.91 fundur 552#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:05]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Nú er að koma í ljós, eins og við í stjórnarandstöðunni höfum gagnrýnt, að málið er með eindæmum illa undirbúið. Menn hafa bókstaflega ekkert hugsað um hvað þeir voru að gera.

Í upphafi ætluðu menn sér að setja hér lög sem gætu orðið til þess að þrengja samningi Vélstjórafélags Íslands og LÍÚ upp á alla aðra aðila að þessari deilu. Menn eru byrjaðir að hrekjast frá þessari niðurstöðu og nú sitja þeir uppi með að taka þurfi á málinu með víðtækari hætti, að Sjómannasambandið sem aflýsti verkfalli verði samt sem áður haft með í þessu bixi sem á að samþykkja hér frá hv. Alþingi og jafnvel að það þurfi þá að hala Vélstjórafélagið inn í þetta líka. Alþingi Íslendinga stendur frammi fyrir býsna flóknu verkefni og það kann að taka lengri tíma en daginn sem nú er að líða að leysa úr því og fá niðurstöðu sem skynsamleg er.

Ég segi bara að mér finnst Alþingi Íslendinga vera komið á hálar brautir ef það ætlar að leysa vandamál með lögum sem á að leysa í samningum og lætur sér ekki nægja að taka á aðaldeiluefnunum sem eru til staðar í málinu, en það eru auðvitað deilurnar um fiskverðið og hugsanlega mönnunarmálið. Á grundvelli sem þannig væri skapaður gætu samningsaðilar komist að niðurstöðu.

Ætla menn að innleiða þá aðferð á Alþingi Íslendinga að leysa úr kjaradeilum með því að búa bara til kjarasamninga í framhaldi af lagasetningu hér endalaust? Það virðist stefna í slíka vitleysu með því sem hér er verið að setja fram.