Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:42:38 (7886)

2001-05-16 10:42:38# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:42]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og breytingartillögum frá efh.- og viðskh. um frv. til laga um Seðlabanka Íslands.

Frv. þetta felur í sér ný heildarlög um Seðlabanka Íslands. Núgildandi lög eru að stofni til frá árinu 1986 og eru að mörgu leyti barn síns tíma. Frá 1985 hafa orðið feikimiklar breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði. Löggjöf um einstaka þætti þessa markaðar hefur verið endurnýjuð, sum lög nokkrum sinnum og því er fyllilega tímabært að endurnýja líka löggjöfina um Seðlabanka Íslands. Á árinu 1993, að mig minnir, var lagt fram frv. til laga um Seðlabanka Íslands. Það varð ekki að lögum og síðan hefur ekki verið lagt fram frv. um heildarlöggjöf um bankann.

Mál þetta er þannig til komið að forsrh. skipaði sérstaka nefnd til þess að vinna að gerð frv. Í nefndinni sátu fulltrúar flestra þingflokka, þó ekki allra, þ.e. fulltrúar Sjálfstfl., Framsfl., Samfylkingar og Vinstri grænna. Þessi nefnd skilaði af sér tillögum til forsrh. um frv. sem hann hefur síðan flutt og lagt fyrir þingið. Frv. er allvel unnið af hálfu nefndarinnar sem samdi það. Efh.- og viðskn. leggur því ekki til miklar breytingar á frv. Þær eru þó nokkrar og ég vil geta þeirra.

Í fyrsta lið breytingartillagnanna er gerð tillaga um breytingu á 2. mgr. 17. gr. frv. sem er fyrst og fremst um að tekið verði út hugtakið fjármálastofnun sem er ekki hefur skilgreinda merkingu í lögum.

Í öðrum lið breytingartillagnanna er fjallað um 23. gr. Í henni eru ákvæði um skipunartíma bankastjóra. Þar er lagt til að bætt verði inn nýjum málslið í stað 4. og 5. málsliðar, þess efnis að heimilt verði að skipa þann sem tvisvar hefur verið skipaður bankastjóri einu sinni enn ef honum er í það skipti falin formennska bankastjórnar. Þessi brtt. er gerð í því skyni að skýra betur út í lagatextanum það sem vilji frumvarpshöfunda og flutningsmanns stendur til.

Í þriðja lið er gerð tillaga um breytingu á 27. gr. þar sem gert er ráð fyrir að tveir bankaráðsmenn þurfi að óska eftir fundi til þess að skylt sé að halda hann. Þessi breyting er gerð í ljósi þess að í frv. er gert ráð fyrir því að bankaráðsmenn verði sjö í stað fimm eins og þeir eru nú.

Í fjórða lið breytingartillagnanna er gerð tillaga um að verðbréfasjóðum verði bætt við þá aðila sem heimilt er að beita viðurlögum. Jafnfram er um að ræða sams konar breytingu og ég gat um í fyrsta lið, þ.e. að fella út hugtakið fjármálastofnun.

Síðan gerir nefndin tillögu um að við 40. gr. bætist ákvæði um að Seðlabankinn greiði í síðasta skipti til Vísindasjóðs á árinu 2001. Þetta er sett inn af hálfu nefndarinnar til að taka af öll tvímæli um að Seðlabankinn eigi að greiða til Vísindasjóðs á þessu ári.

Virðulegi forseti. Undir nefndarálitið skrifar öll nefndin en þrír hv. þm. skrifa undir það með fyrirvara og munu væntanlega gera grein fyrir þeim hér á eftir.

Ég vona, hæstv. forseti, að þetta frv. fái afgreiðslu með þessum breytingum fyrir þinglok.