Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 20:47:16 (8026)

2001-05-17 20:47:16# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[20:47]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta. Það er hægt að taka önnur dæmi en Þýskaland til að sýna svart á hvítu hvernig samkeppnin hefur gert hag neytenda á þessum markaði betri. Það er alveg ljóst.

Ég get líka tekið undir að Landssími Íslands er mjög álitlegur fjárfestingarkostur. Þetta er gott fyrirtæki sem hefur staðið sig vel í rekstri fjarskiptaþjónustu. Ég vil einmitt benda hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem er m.a. formaður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, á að fjárfesta í þessu fyrirtæki. Mér skilst að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins fái u.þ.b. milljarð á mánuði í sinn kopp og ég tel að þarna sé afar vænlegur fjárfestingarkostur fyrir formann Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að hugsa um og nýta sér.