Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 22:27:38 (8052)

2001-05-17 22:27:38# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[22:27]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Mér er mjög vel ljóst að við þurfum að gæta þess að raunveruleg samkeppni sé á markaðnum. Um það snýst nú mörg ræðan hér hvernig við eigum að tryggja það. Við tryggjum það m.a. með þessum stofnunum, Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun, sem eiga að fylgjast með því í þágu neytenda á Íslandi. Ég held að við verðum að gera þá kröfu til þeirra aðila að þeir standi vel að verki og hv. samgn., sem fjallaði mjög vandlega um það mál, undirstrikar hlutverk þeirra alveg sérstaklega.

Ég vil að það komi alveg skýrt fram að ég tel að við, íslenskir neytendur, eigum mjög mikið undir því að á komist samkeppni. Ég tel ekki eðlilegt ástand að til eilífðarnóns verði sú afgerandi markaðshlutdeild sem er í dag í fastlínukerfi Símans. En vel að merkja: Við höfum búið þannig um hnútana að önnur símafyrirtæki eiga aðgang að kerfum og heimtaugum sem Síminn á í dag. Það er tryggingin sem neytendur hafa.