2001-05-18 00:22:34# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[24:22]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það kemur ekki á óvart að fulltrúi Alþfl. sé á móti því að selja Landssímann eins og hann liggur fyrir og sé með vöflur í því máli sem er í samræmi við gamlar og nýjar ályktanir, fyrst hjá Alþfl. og síðan nú hjá Samfylkingunni.

Staðreynd málsins er sú að verð á þjónustu Landssímans hefur verið að lækka. Það er fyrst og fremst að þakka tæknibreytingum og tækninýjungum og því að þetta fyrirtæki hefur haft lag á því eða burði til þess, skulum við segja, að tileinka sér nýja tækni jafnskjótt og hún hefur komið upp, þó með þeim hætti að það hefur komið sér vel til langs tíma litið, bæði fyrir neytendur og fyrirtækið sjálft.

Misskilningur hv. þm. nú, eins og raunar misskilningur Alþfl. alla tíð, er sá að hann heldur að ekki sé komin samkeppni í grunnnetinu. Auðvitað er komin samkeppni þar. Ljósleiðari er þegar kominn til Vestmannaeyja og Lína.Net og Fjarski, fjarskiptafyrirtæki Landsvirkjunar, hafa gert bindandi samning við rannsóknar- og háskólanet Íslands um að leggja ljósleiðara til Ísafjarðar, til Akureyrar og austur á land. Jafnframt er í athugun að leggja ljósleiðara alls staðar þar sem raforkudreifingarkerfi Landsvirkjunar nær til. Þessi samkeppni er þarna komin þannig að þau rök sem hv. þm. fór með áðan eru úr lausu lofti gripin, eru ímyndun, og virðast benda til þess að Alþfl. hafi ekki fylgst með, skilji ekki þá nýju tækni sem nú er að banka á dyrnar en var fyrirsjáanleg fyrir tíu árum og auðvitað munum við Íslendingar njóta þess.