2001-05-18 00:24:49# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[24:24]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara neitt út í að kenna hæstv. forseta Alþingis fyrir hvaða flokk ég sit á Alþingi. En það er alveg hárétt og ég er stoltur af því að ég var og er alþýðuflokksmaður og það á hv. þm. að vera vel kunnugt um með tilurð Samfylkingarinnar og allt það. En sleppum því.

Hann ræðir um samkeppni á þessu sviði. Má ég spyrja hv. þm. út í það, herra forseti: Hver er samkeppnin í grunnnetinu til Raufarhafnar eða Ólafsfjarðar? Er einhver samkeppni þar? Er einhver samkeppni til Neskaupstaðar? Geta Neskaupstaðarbúar valið um að kaupa ljósleiðara eða línur frá einhverjum öðrum en Landssímanum? Er einhver sanngirni í því að í dag og undanfarin ár hafa Neskaupstaðarbúar þurft að borga 260 þús. kr. meðan fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu þarf að borga 26 þús. kr.? Er einhver samkeppni á þessum markaði, á þessa staði? Ég held nú ekki, aldeilis ekki.

Það er sannarlega samkeppni hér. Hv. þm. nefndi Línu.Net, það mikla og góða fyrirtæki sem borgaryfirvöld í Reykjavík með borgarstjórann í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í broddi fylkingar, hafa verið að byggja upp og er algjör tæknibylting. Það væri óskandi að það væru til slíkar bæjarstjórnir úti um allt land sem hefðu jafnmikla framsýni og þarna er sýnd.

En ég ítreka það, herra forseti, að samkeppnin sem hv. þm. er að ræða um er ekki til staðar á mjög mörgum stöðum á landsbyggðinni. Ég vil aðeins segja eitt í lokin: Miðað við það sem hér er ætlunin, og það eru skilaboð ríkisstjórnar til landsbyggðarinnar eins og þau eru í dag, að landsbyggðin eigi að vera annars flokks í þessum efnum. Landsbyggðin mun ekki njóta tækninýjunga né þess hraða sem er á þessu sviði í dag eins og er á höfuðborgarsvæðinu.