2001-05-18 00:26:57# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[24:26]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það mátti glöggt heyra á hv. þm. að hann skilur ekki alveg hvað er að gerast. Auðvitað er ekki komin samkeppni á ljósleiðaranum til Akureyrar áður en hinn nýi ljósleiðari er lagður. Þetta segir sig sjálft. Undarlegt að hv. þm. skuli ekki skilja jafnaugljósan hlut. (Gripið fram í.) Þetta er ekki útúrsnúningur. Samkeppnin er að koma.

Hv. þm. sagði áðan að hann vildi selja þann hluta Símans sem er í samkeppni. Það liggur fyrir að Landssíminn verður og er byrjaður í samkeppni við Línu.Net --- sem hv. þm. hrósaði --- einmitt í grunnnetinu. Nú er það komið til Vestmannaeyja, það er að koma til Ísafjarðar og Akureyrar, það er að koma austur á land og það er að koma víðar þannig að þessi samkeppni er þegar til staðar sums staðar og mun verða víða um land áður en langt um líður. Fyrir svo utan það að samkeppnin er einnig í sambandi við gervitungl. Auðvitað er Landssíminn þar að auki í samkeppni við erlend fyrirtæki.

Síðan er annað sem hv. þm. þegir um og það er sú staðreynd að það kostar verulega fjármuni, ekki aðeins stofnkostnað heldur líka rekstrarkostnað, að aðskilja grunnnetið frá öðrum þáttum Landssímans. Sá kostnaður, ef út í hann verður ráðist og farið, verður ekki greiddur af öðrum en Íslendingum, bæði höfuðborgarbúum og landsbyggðarmönnum.

Hv. þm. er alltaf að tala um að hann vilji ekki íþyngja landsbyggðarmönnum. Hann ætti þá líka að hugsa um að reyna að spara landsbyggðarmönnum þann aukakostnað, þann nýja skatt sem hann vill á þá leggja með því að aðskilja Landssímann. Þarna kemur tvískinnungur þessa hv. þm. fram, tvískinnungur hans í málflutningi og tvískinnungur hans í því að fara með rétt mál þegar hann er að tala um landsbyggðarmál.