2001-05-18 00:49:46# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[24:49]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Komið er að lokum umræðunnar og nokkur atriði sem ég vildi bæta við inn í hana áður en henni lýkur.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem síðastur talaði hér, dró í efa að samkeppni yrði tryggð á fjarskiptamarkaði. Ég er honum algerlega ósammála. Hann og fleiri hv. þm., og kannski ekki síst hv. þm. Kristján L. Möller, töluðu eins og menn hafi verið að finna upp hjólið á höfuðborgarsvæðinu með því að þar bættist nýtt fyrirtæki á markaðinn. Hann reyndi undir lokin raunar að bæta ögn um með því að taka fram að Síminn væri hið besta fyrirtæki. En ég vek athygli á því að þjónusta Landssíma Íslands er býsna öflug. Þrátt fyrir að nýtt fyrirtæki kæmi á markaðinn, þ.e. Lína.Net, hafði verið boðið upp á mjög mikla tækni og góða þjónustu en samt sem áður var afar mikilvægt að Reykjavíkurborg eða raunar Orkuveita Reykjavíkur og þau fyrirtæki, því Orkuveitan stendur ekki ein að Línu.Neti, sem standa að því að byggja upp flutningskerfi hér á höfuðborgarsvæðinu og væntanlega víðar um landið, voru afar mikilvæg til að koma á samkeppni. Ekki verður samkeppni með einu fyrirtæki, það er öllum ljóst, og ég hef margítrekað í þessari umræðu að fjarskiptalöggjöfin og allur sá rammi sem við höfum verið að setja er til þess gerður að skapa nýjum fyrirtækjum, skapa fleiri aðilum færi á að stunda þessa starfsemi.

Eins og hefur raunar komið fram hjá nokkrum hv. þm. eru fyrirtæki að sinna fjarskiptaþjónustunni, sinna rekstri grunnkerfa. Hér voru nefnd Lína.Net, Fjarski. Ég vil vekja sérstaka athygli á þeim samningi sem rannsókna- og háskólanet Íslands (RHnet) hefur gert við eitt af þessum fyrirtækjum, sem er Fjarski, sem gengur út á það að tengja saman þessar stofnanir, háskólana í Reykjavík, á Hvanneyri, skólasetrin á Laugarvatni, Háskólann á Bifröst og Háskólann á Akureyri og Hólaskóla. Allar þessar mennta- og rannsóknastofnanir eru tengdar saman með öflugu rannsóknaneti sem er talið eitt öflugasta rannsóknanet á Norðurlöndum. Þetta ætti kannski að hafa einhverja þýðingu í uppbyggingu á þessum hlutum hér á Íslandi og gefa mikil fyrirheit um það sem koma skal vegna þess að það er mikið afl og mikill vilji hjá mjög mörgum aðilum í þjóðfélaginu til að nýta sér fjarskiptatæknina og upplýsingabyltinguna. Þetta vildi ég segja til að árétta að vissulega er vel að verki staðið hjá mjög mörgum. Sem betur fer þarf ekki að líta einungis í eina átt, einungis til fyrirtækisins sem við erum að ræða um aðallega í dag, þ.e. Landssíma Íslands.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talaði áðan eins og það væri hið einfaldasta mál að útvíkka svokallaða alþjónustukvöð, að alþjónustan gengur m.a. út á það að gera þá kröfu til fyrirtækja að sinna gagnaflutningum upp á hinar svokölluðu ISDN-tengingar. Það er ekkert sem hægt er að fullyrða á þessari stundu að verði ævarandi og eilíft en eins og sakir standa núna geri ég ekki ráð fyrir að mjög auðvelt verði að aðlaga frekari útvíkkun á alþjónustukvöðinni að óbreyttum reglum hins Evrópska efnahagssvæðis. Við verðum að átta okkur á því. Við verðum að sætta okkur við það en engu að síður þurfum við að fylgjast með þróuninni og standa þannig að endurbótum á löggjöf og leitast við að hafa áhrif á þróunina á hinu Evrópska efnahagssvæði okkur öllum til hagsbóta. Það er aðalatriði málsins. En á þessari stundu getum við ekki fullyrt að það sé með einu pennastriki eða með einfaldri samþykkt hjá okkur að við getum gert slíkar breytingar. Þetta er nauðsynlegt að komi fram þó að, eins og ég sagði, vert sé að undirstrika það rækilega að við þurfum að fylgja þróuninni og aðlaga löggjöf okkar.

Í þessari umræðu tel ég að engin haldbær rök hafi komið fram sem skjóta stoðum undir þá kröfu að slíta grunnnet Landssímans frá fyrirtækinu. Farið hefur verið rækilega yfir tæknilegar ástæður þess, sem eru taldar mjög óhagstæðar, að slíta netið frá. Það er mikill kostnaður og ekki efnahagslega ásættanlegt fyrir okkur. Báðir þessir höfuðþættir segja okkur það og fyrir því eru færð mjög sterk rök í skýrslu einkavæðingarnefndarinnar að fyrirtækið er betur sett til að þjóna öllu landinu án þess að slíta grunnnetið frá fyrirtækinu. Þetta vildi ég að kæmi fram skýrt og greinilega í lokaræðu minni.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna, herra forseti, það er liðið fram yfir miðnætti. Ég vil að lokum þakka hv. þm. fyrir öflugar umræður. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um þetta mál eins og við var að búast. Það er sannfæring mín að með því að standa að sölu á hlutafé ríkisins í Landssímanum séum við að ganga inn í nýja tíma á þeirri forsendu að það sé óeðlilegt og er óeðlilegt að ríkið standi í samkeppni á samkeppnismarkaði þar sem einkaaðilar og fyrirtæki starfa.

Ég vona að ljúka megi 3. umr. sem allra fyrst um þetta mál og menn geti tekið til við næsta skref í þessu mikilsverða verkefni.