2001-05-18 00:59:01# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[24:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Óeðlilegt er að ríkið standi í samkeppni á samkeppnismarkaði, segir hæstv. samgrh. Út á það hefur þessi málflutningur m.a. gengið, að hér muni ekki skapast kröftugur samkeppnismarkaður. Menn hafa af því áhyggjur að verið sé að einkavæða einokun. Samkeppnisaðilar Símans hafa m.a. lýst því sjónarmiði.

Hitt vil ég spyrja hæstv. ráðherra um í ljósi þess að nokkrar líkur eru á að aðstöðumunur, sem er nú þegar á milli fyrirtækja í þéttbýli og í dreifbýli varðandi gagnaflutning, kunni að aukast jafnvel og meiri hluti samgn. hefur beint því til hæstv. samgrh. að leita leiða til að styrkja fyrirtæki á landsbyggðinni í þessu efni: Hvaða hugmyndir hefur hæstv. samgrh. sjálfur hvað þetta snertir því að varla er ráðist í þessa framkvæmd án þess að það mál hafi verið hugsað til enda?

Í annan stað langar mig til að beina spurningu til hæstv. samgrh. varðandi það atriði sem fjallað er um í meirihlutaálitinu þar sem segir að samgrh. hafi samkvæmt fjarskiptalögum heimildir til að leggja í framkvæmdir við rekstur sem er til almannaheilla í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum og ætla má að skili ekki arði. Hvaða framkvæmdir erum við hér að tala um? Hvað hefur hæstv. samgrh. hugsað sér í þessu efni, hvaða verkefni kann hér að vera um að ræða?