Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 14:33:42 (8115)

2001-05-18 14:33:42# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er sennilega það lengsta sem maður kemst með hæstv. ráðherra að hún lýsir því hér yfir að hún ætli að hafa samráð við starfsmennina áður en til sölu á bönkunum kemur og er það auðvitað skref í áttina. Þó hefði verið eðlilegt að ráðherrann lýsti viðhorfum sínum til þeirra tillagna sem fram hafa komið hjá starfsfólki. En ég vænti þess þá að ráðherrann standi við það að kallað verði eftir viðhorfum starfsfólks og tillögur þess ræddar áður en kemur til sölu á bönkunum.

Herra forseti. Ég var alls ekki að biðja hæstv. ráðherra um að segja álit sitt á þeirri rannsókn sem fer fram á viðskiptum Búnaðarbankans við ákveðna aðila. Ég er einungis að spyrja hvort hún sé sammála því sjónarmiði sem Jón Sveinsson fulltrúi í einkavæðinganefnd hefur sett fram, og hann segir að sé sameiginlegt viðhorf allra nefndarmanna, að ekki sé heppilegt að selja hlut ríkisins í Búnaðarbankanum á meðan bankinn sætir opinberri rannsókn. Ég er ekkert að spyrja um rannsóknina sjálfa eða innihald hennar. Ég er að spyrja hvort ráðherrann sé sammála þessu viðhorfi Jóns Sveinssonar og allrar einkavæðingarnefndarinnar eða hvort það hafi verið frumhlaup af hálfu Jóns Sveinssonar fulltrúa í einkavæðingarnefnd að setja fram þessi viðhorf nefndarmanna í einkavæðingarnefndinni. Það hefði verið upplýsandi hér í stöðunni ef það lægi þá fyrir að það eigi að byrja á því að selja hlut ríkisins í Landsbankanum og bíða með Búnaðarbankann, eins og fram kemur hjá Jóni Sveinssyni. Ég spyr því um það. Er það frumhlaup hjá nefndarmönnum að þessi yfirlýsing liggi fyrir?

Síðan hefur hæstv. ráðherra væntanlega ekki haft tíma til þess að svara því sem ég nefndi um svar hennar við fyrirspurn minni um vanskilin í bankakerfinu. Telur ráðherrann ekki um mjög háar tölur að ræða þegar við erum að tala um að vanskil hjá einstaklingum hjá níu innlánsstofnunum, sem fara með 73% af heildarútlánum innlánsstofnana, séu orðin nálægt 6%?