Húsnæðismál

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 20:02:05 (8419)

2001-05-19 20:02:05# 126. lþ. 129.29 fundur 623. mál: #A húsnæðismál# (kærunefnd, afskriftir, vanskil o.fl.) frv. 77/2001, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[20:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona sannarlega að við náum landi í þessu máli alveg á næstu vikum. Ég átti í þessari viku fund með hæstv. fjmrh. þar sem við fórum yfir þessi mál. Við erum að bíða eftir ákveðnum útreikningum frá Þjóðhagsstofnun um það hvernig mismunandi kostir komi út og ég vænti þess að við náum þarna lendingu sem endist til frambúðar.

Vissulega er rétt að húsaleiga hefur farið upp úr öllu valdi hér í borginni, reyndar ekki hjá Félagsbústöðum. Þar er hámarksleiga, ef ég veit rétt, 42 eða 45 þús. kr. á mánuði fyrir þriggja til fjögurra herbergja íbúð, lægri fyrir minni íbúðir að sjálfsögðu. En á prívatmarkaði þá heyrir maður um svimandi upphæðir sem fólk er að borga í leigu. Á móti koma húsaleigubætur, svo framarlega sem ekki er leigt svart. Hámark húsaleigubóta er 35 þús. kr. og þó leiga sé töluvert hærri en það þá koma náttúrlega húsaleigubæturnar verulega á móti hárri leigu, sérstaklega hjá barnafólki sem væntanlega þarf stærri íbúðir. Eins og e.t.v. hv. þingmenn muna þá voru húsaleigubætur hækkaðar um síðustu áramót.