Forseti Íslands setur þingið

Mánudaginn 02. október 2000, kl. 14:13:00 (1)

2000-10-02 14:13:00# 126. lþ. 0.92 fundur 7#B forseti Íslands setur þingið#, Forseti Íslands f.Ísl.
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 5. september 2000 var gefið út svofellt bréf:

,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman mánudaginn 2. október 2000.

Um leið og ég birti þetta, er öllum sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 5. september 2000.

Ólafur Ragnar Grímsson.

-------------------

Davíð Oddsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman mánudaginn 2. október 2000.``

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett. Ég óska þingmönnum heilla í vandasömum verkum og vona að ákvarðanir sem hér verða teknar færi þjóð okkar farsæld um ókomna tíð.

[14:15]

Upphaf þings markar jafnan þáttaskil í opinberri umræðu og setur brag á þjóðlíf allt. Þá er vor og sumar að baki og við taka haustverk og vetur, veðrabrigðin verða snarpari og vindhviðurnar tíðari, bæði í náttúru og á vettvangi þjóðmálanna.

Starfstími þingsins tók fyrrum mið af búskaparháttum enda margir þingmenn gildir bændur á góðum jörðum og gengu þar til brýnna verka, sauðburðar að vori, heyskapar að sumri, fjallskila að hausti. Sú hefð sem þá var mótuð hefur löngum markað hrynjandina í þinghaldinu og fyrsti samkomudagur Alþingis á hausti miðaður við þessa tíð þótt umbylting í atvinnuháttum, samgöngum og þjóðlífi öllu hafi gefið flestu öðru nýja mynd.

Við þingsetningu árið 2000 er hollt að líta um öxl og minnast þeirra umskipta sem orðið hafa á högum Íslendinga á öldinni sem liðin er frá því Alþingi stóð síðast á slíkum vegamótum. Þá voru enn nokkur ár til heimastjórnar og nærri hálf öld til lýðveldistöku. Erlendir stjórnarherrar réðu úrslitum um meðferð og niðurstöður mála því danskur ráðherra fór ásamt konungi með neitunarvald gagnvart þeim lögum sem Alþingi samþykkti. Þingið var vettvangur baráttunnar fyrir sjálfstæði og fullveldi og hafði frá endurreisn og þjóðfundi hægt og bítandi eflt trú þjóðarinnar á mátt sinn og megin, sjálfstraust Íslendinga. Og þó var þinghaldið á öldinni þeirri mjög á annan veg en við nú þekkjum. Alþingi kom aðeins saman annað hvert ár og fundaði aðeins fáeinar vikur í senn, þingflokkar og fastbundnar nefndir sem nú ráða mestu um meðferð mála lengst af óþekkt með öllu.

Nú heilsar Alþingi nýrri öld í allt öðrum búningi. Þingmennska hefur á síðari árum orðið aðalstarf og hjá flestum hið eina. Það er raunar umhugsunarvert hve nýir þessir tímar eru því að enn eru á þingi þeir sem vel þekkja þá tíð þegar algengt var að alþingismenn gegndu einnig öðrum störfum.

Lungann úr 20. öldinni voru alþingismenn jafnframt, svo dæmi sé tekið, bændur eða bankastjórar, forustumenn í samtökum atvinnulífs eða launafólks, læknar eða lögfræðingar, kaupfélagsstjórar eða útgerðarmenn. Þingmennskan var aðeins hluti af ábyrgð þeirra og starfsskyldu. Á skömmum tíma hefur orðið mikil breyting í þessum efnum og Alþingi leitað leiða til að gera þingmönnum kleift að helga sig alla þeirri ábyrgð sem í kjörinu felst. Jafnframt hafa breytingar á þjóðlífi og alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga fært Alþingi nýja stöðu og úrlausnarefni sem áður voru að mestu óþekkt. Samtökum og sérfræðistofnunum sem eiga hlutdeild í stefnumótun og vinna við lagasmíð og samningu reglugerða hefur fjölgað mjög. Með þjálfuðu og sérhæfðu starfsfólki, nýrri tækni til miðlunar og öflun upplýsinga hafa umsvif þeirra aukist til muna. Vaxandi áhrif markaðar, einkavæðing og nýtt rekstrarform ríkisfyrirtækja hafa breytt þeirri ábyrgð sem áður gilti og fært hana á margar hendur sem háðar eru öðru aðhaldi en kjörið skapar. Margháttaðar skuldbindingar okkar á alþjóðavettvangi í efnahagsmálum, mannréttindum, umhverfisvernd og á öðrum sviðum hafa samhliða vaxandi þátttöku Íslands í starfi alþjóðlegra samtaka knúið stofnanir stjórnkerfisins til að taka í auknum mæli mið af þeim ákvörðunum sem teknar eru af þjóðum heims í sameiningu.

Breytingar á fjölmiðlun og nýjar upplýsingaleiðir hafa markað skoðanaskiptum og umræðum nýjan völl og víðtækari. Fyrir fáeinum áratugum sátu málgögn stjórnmálaflokka og ríkisfjölmiðlar ein að þeirri hitu. En nú er myndin margbrotnari og sífellt fleiri kallaðir fram á völlinn til að láta til sín taka í ákvörðunum og stefnumótun. Hver og einn af þessum þáttum, og allir eiga þeir sér hliðstæður með öðrum þjóðum, hefur áhrif á ásýnd og stöðu þjóðþinganna. Og þeir hafa víða á Vesturlöndum leitt til umræðna um þróun þess lýðræðis sem við höfum löngum talið í senn blessun okkar og gæfu.

Alþingi er ekki aðeins kjarninn í þeirri stjórnskipan sem við höfum kosið heldur einnig burðarstoð í sjálfsvitund okkar og menningu, meginþráður í þúsund ára sögu. Alþingi er elsta stofnun Íslendinga. Kjarni þjóðveldisins til forna sem færði okkur glæstar bókmenntir, arfinn sem best dugði til að brýna og eggja þjóðina, efla henni þor þegar sótt var fram til sjálfstæðis og nýrrar tíðar.

Á Alþingi voru teknar þær ákvarðanir sem í kjölfar heimastjórnar og lýðveldistöku umbreyttu efnahag Íslendinga og skópu hér samfélag velferðar, almennrar menntunar og öflugrar heilsugæslu. Alþingi, hið elsta allra þjóðþinga, skapar Íslendingum sérstöðu í samfélagi þjóðanna eins og oft kemur fram þegar góða gesti ber að garði og þeir koma hér í Alþingishúsið. Það er mér gleðiefni að á undanförnum fjórum árum hefur tekist að festa í sessi þann góða sið að erlendir þjóðhöfðingjar sem til Íslands koma heimsæki Alþingi við Austurvöll og eigi hér efnisríkar viðræður við fulltrúa forsn., utanrmn. og þingflokka. Þessi skipan hefur reynst farsæl nýbreytni og vil ég þakka Alþingi fyrir góða samvinnu við forsetaembættið í þessum efnum.

Þeim þjóðhöfðingjum sem hingað hafa komið á nýliðnum árum hefur þótt mikilsvert að eiga þess kost að heimsækja með formlegum hætti elsta þjóðþing veraldar og eiga hér orðastað við alþingismenn. Kemur jafnvel til álita að Alþingi hugleiði að gera þær breytingar á þingsköpum sem opnuðu leiðir til að bjóða erlendum þjóðarleiðtogum að ávarpa Alþingi með formlegum hætti á sérstökum þingfundi líkt og tíðkast víða um lönd. Sú skipan gæti gert heimsókn í Alþingi að hápunkti Íslandsdvalar og veitt hinum erlendu áhrifamönnum tækifæri til þess að lýsa stefnu sinni og viðhorfum á vettvangi sem hefur einstæðan sess í lýðræðissögu veraldarinnar. Slíkar ræður erlendra þjóðhöfðingja á Alþingi Íslendinga gætu einnig lagt sjónarmiðum okkar og hagsmunum aukið lið og eflt vegsemd og gildi þingsins sjálfs.

Þegar Alþingi kemur nú saman á haustdögum árið 2000 geta þingið og þjóðin fagnað því hve vel hefur tekist við að minnast viðburðanna sem einna hæst hafa risið í sögu þjóðarinnar, kristnitöku og landafunda árið 1000. Bæði á Þingvöllum og með helgistundum heima í héraði hefur þjóðin beint sjónum að gildi kristindómsins og staðfest á ný að boðskapurinn um siðferði og trú sem Alþingi löggilti á helgum völlum er áfram gildur strengur í þjóðarvitund Íslendinga. Með fjölþættum viðburðum vestan hafs, í Bandaríkjunum og Kanada, hefur hin íslenska arfleifð siglinga og landafunda, bókmenntir okkar og menning að fornu og nýju öðlast víðtækari kynningu en nokkru sinni fyrr. Sá árangur veitir okkur ekki aðeins tækifæri til nýrrar sóknar. Hann hefur einnig treyst til muna böndin við vinaþjóðir í vestri, hagsmunum okkar til margvíslegs framdráttar. Það er lítilli þjóð verðmætt veganesti inn í óvissutíð nýrrar aldar.

Alþingi hefur með ákvörðun um stuðning og fjármagn gert öðrum kleift að gera þessa atburði glæsilega og áhrifaríka og þjóðinni til sóma á einstöku hátíðarári. Fyrir það ber að þakka á þessari stundu þegar Alþingi hefur nú störf og árið 2000 er senn á enda. Megi sá skilningur á sögu okkar og menningu sem Alþingi hafði að leiðarljósi þegar horft var til kristnitöku og landafunda jafnan verða þingi og þjóð leiðarljós um ókomna daga.

Ég bið alþingismenn að rísa úr sætum og minnast fósturjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú þeim þingmanni sem lengsta fasta þingsetu hefur að baki að stjórna fundi þangað til forseti Alþingis hefur verið kosinn og bið ég Pál Pétursson, 2. þm. Norðurl. v., að ganga til forsetastóls.