Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 15:28:50 (61)

2000-10-04 15:28:50# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Tímatal Framsóknar er mjög hefðbundið og mér er engin vorkunn. Ég vil byrja á að segja það.

Í sambandi við fjarvinnsluverkefni vil ég segja að samstarfsverkefni er í gangi milli iðnrn., Iðntæknistofnunar og Byggðastofnunar og ákveðið var að skilgreina nánar tíu af þeim verkefnum sem fjallað var um í skýrslu sem Iðntæknistofnun vann fyrir forsrh. og Byggðastofnun á síðasta ári.

Þessar viðskiptaáætlanir eru margar hverjar tilbúnar og hafa verið sendar ráðuneytum sumar hverjar og eru þar til umfjöllunar.

Það sem ég átti við á Ólafsfirði í mars er ég talaði um fréttir áður en sá mánuður væri á enda, var að þá var verið að vinna að verkefni sem er landskrá lausafjármuna. Ég taldi að það verkefni gæti orðið að veruleika og kannski verður það það. Ég hafði ekki vald á málinu vegna þess að það varðar ekki mitt ráðuneyti. (Gripið fram í.) En ég vil trúa því að það sé enn til umfjöllunar í viðkomandi ráðuneyti. Síðan verðum við að sjá til hvað úr því verður. Fyrst Ólafsfjörður var nefndur þá er annað verkefni líka til umfjöllunar sem varðar það bæjarfélag en er ekki endanlega lokið.

Ég get tekið undir þann tón sem ég heyrði hjá hv. þm. að fjarskiptamálin hafa valdið mér vonbrigðum og ganga miklu hægar en hefði þurft að vera. En eitt af því sem ég tel að við verðum að taka tillit til í þessum efnum er sú niðurstaða fjmrn. að verkefni sem flytjast til einkafyrirtækja á landsbyggðinni þurfi að fara í útboð ef umsvifin eru meiri en nemur 3 millj. kr.