Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:30:23 (227)

2000-10-09 16:30:23# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:30]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Þetta var ekki ómerk yfirlýsing, hæstv. forseti. Það var ekkert smáatriði sem kom fram. Ég get ómögulega skilið hæstv. viðskrh. öðruvísi en svo að ekki verði um að ræða, hvað sem í fjárlögunum stendur um heimildir, frekari sölu á hlut ríkisins í fjármálastofnunum eins og bönkum fyrr en búið verði að tryggja það af hálfu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar, a.m.k. eins vel og hægt er, að viljinn um dreifða eignaraðild nái fram að ganga.

Herra forseti. Ég lýsi því yfir að þetta er ein merkasta yfirlýsing sem komið hefur fram varðandi þessi mál um margra mánaða skeið. Ég sakna þess satt að segja mjög að hvorki formaður efh.- og viðskn., fjmrh. né forsrh. séu viðstaddir því þessi yfirlýsing frá einum af helsta forustumanni Framsfl., annars stjórnarflokksins, og sjálfum viðskrh. er ekki smá. Hæstv. ráðherrann segir: Þið farið ekki fram með málið fyrr en ég er búin að gera þær ráðstafanir sem ég tel að þurfi að gera til að tryggja yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild.