Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 17:02:26 (239)

2000-10-09 17:02:26# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[17:02]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að ég hef verið andvígur því að einkavæða ríkisbankana. Ég hef reyndar viljað fara aðrar leiðir í því efni, viljað kanna hvort æskilegt væri að sameina ríkisbankana tvo, Landsbanka og Búnaðarbanka, eða styrkja stöðu þeirra eins og þeir starfa núna, sem mér fyndist einnig koma til greina. Fyrir þessu hef ég talað í löngu og ítarlegu máli á Alþingi og aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa haft svipaðan málflutning uppi.

Við viljum hins vegar bregðast við þeirri stöðu sem upp kemur eftir að ríkisstjórnin hefur haft sitt fram og einkavætt bankana. Fyrstu skrefin hafa verið stigin, þeir hafa verið gerðir að hlutafélögum og nú er farið að selja hluti ríkisins í þeim. Þá viljum við leggja okkar af mörkum til að stuðla að sem dreifðastri eignaraðild og koma í veg fyrir samþjöppun á þessu sviði. Þarna eru því engar mótsagnir á ferðinni að mínum dómi.

Í öðru lagi er alveg hárrétt hjá hv. þm. að það er ekki nein ný bóla að samþjöppun sé á eignarhaldi í atvinnulífinu. Hins vegar held ég að hún hafi ekki verið eins mikil eða haft eins alvarlegar afleiðingar og það sem við sjáum nú fram undan.

Í þriðja lagi er það rétt að við, þ.e. ríkið á um 70% í ríkisbönkunum en það er einmitt þess vegna sem við getum beint spurningum til hæstv. ráðherra, sem fer með hlutabréfin fyrir okkar hönd, og ætlast til þess að hæstv. ráðherra veiti okkur svör. Ég býst við þeim svörum hér á eftir.