Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 17:09:18 (243)

2000-10-09 17:09:18# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[17:09]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. gerir sér eflaust fulla grein fyrir þá er Landsbankanum ekki stjórnað úr viðskrn. Landsbankinn getur tekið ákvarðanir án þess að það sé borið undir viðkomandi ráðherra og þannig er það í þessu tilfelli og fjölda annarra tilfella. Þannig eru bankarnir reknir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þeir séu reknir þannig. Ég vildi a.m.k. ekki bera ábyrgð á öllum ákvörðunum sem teknar eru í þessum stofnunum. Þó að ríkið fari þarna með mikla meirihlutaeign, eigi um 70% í báðum bönkunum eins og hefur komið fram, þá er engin ástæða til að reka þá þannig að viðkomandi viðskrh. stjórni daglegum rekstri.

Þannig er þetta og allar líkur á að farið verði út í frekari sölu. Ég get í sjálfu sér tekið undir með hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni sem talaði hér áðan, að ég held að það sé ekki sérstaklega góð reynsla af því að stjórnmálamenn stjórni bönkunum. Ég held að við eigum að reyna að fikra okkur út úr þeim heimi og meira í átt til þess að bankar séu reknir eins og hver önnur einkafyrirtæki. Ég sé að hv. þm. hristir höfuðið en hann hefur því miður verið dálítið hallur undir það að ríkið stjórni sem víðast. En sú breyting hefur átt sér stað alls staðar í heiminum að slíkar áherslur fara mjög minnkandi.