Upptaka Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 17:29:44 (249)

2000-10-09 17:29:44# 126. lþ. 5.11 fundur 11. mál: #A upptaka Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er lagt til að menn skoði hvort hægt sé að taka upp nýjan skatt á fjármagnsflutninga milli landa, svokallaðan Tobin-skatt og er það svo sem í anda þeirra sem flytja það að reyna að finna fleiri matarholur til að láta hið sameiginlega eyða.

[17:30]

Sú hugmynd sem kom fram hjá síðasta ræðumanni um að þetta yrði gert til að greiða niður skuldir fátækustu þjóða heims er nú þess eðlis að menn eru ekki allir sammála um að það gefi góða raun vegna þess að mörgum þessara ríkja er mjög illa stjórnað og efnahagskerfið er mjög slæmt. Styrkur til ríkisstjórna slíkra landa er því ekkert annað en styrkur til að halda þeim við völd. Og margar hverjar eru þær ógnarstjórnir, svo ekki er á bætandi.

En varðandi framkvæmd svona skatts þá hljóta flutningsmenn að hafa heyrt af fyrirbæri sem heitir netið og þeir hljóta að átta sig á því að fjármagnsfærslur nú á dögum eru bara tilfærslur á rafrænu formi. Og öll viðskipti heimsins gætu átt sér stað á einum punkti, t.d. Norðurpólnum.

Þó að samstaða allra ríkja í heimi næðist, þessara ríkisforsjármanna, um að leggja ætti slíkan skatt á þá búa menn hreinlega til ríki og það er þegar búið að búa til ríki í Karíbahafinu sem heyrir ekki undir neitt land. Það er bara uppbyggð eyja á kóralrifi þar sem áður var sjór. Slík tilbúin ríki gætu náð til sín öllum viðskiptum heimsins ef allar ríkisstjórnir heimsins mundu leggja á Tobin-skatt.

Þetta er kannski aðalvandinn við framkvæmd svona skatts, að þessar færslur sem um er að ræða gætu allar átt sér stað á einum punkti á jörðinni, á einum stað. Það þyrfti reyndar ansi myndarlegt tölvukerfi. En ég er viss um að margir yrðu til í að fjárfesta í slíku dæmi, þ.e. ef tryggt væri að skatturinn yrði lagður á, herra forseti.

Svo er ýmislegt í frv. sem ég hef miklar athugasemdir við. Það eru þessir útreikningar. Talað er um að nú sé veltan á degi hverjum 144 þús. milljarðar. Nú veit ég ekki hvort átt er við 200 daga á ári eða 360 daga á ári. En hvort heldur miðað er við þá eru þetta 30--52 milljón milljarðar, 30--52 milljón milljarðar kr. á ári. Ef við tökum 1‰ af því þá eru það 30--52 þús. milljarðar. Og jafnvel þó við tökum alla spákaupmennskuna frá, 80%, þá standa eftir 6 þús. milljarðar en ekki 8--24 milljarðar. Það munar sem sagt þúsundfalt í útreikningunum. Enda segir sig sjálft að 8--24 milljarðar íslenskra kr. á ári segja ekki nokkurn skapaðan hlut í því að bæta stöðu skuldugra ríkja. Menn eiga því sennilega við 6 þús. milljarða króna á ári sem afrakstur. Og það er mjög skemmtilegt að sjá þarna orðið afrakstur sem nýtt orð yfir skatt.

Ég hef miklar efasemdir um að svona skattur nái nokkurn tíma fram vegna þess að það er nóg að ein ríkisstjórn, í Liechtenstein, sú íslenska, einhver eyja í Karíbahafi eða eitthvað slíkt, verði ekki með því þá fær hún öll viðskiptin í heiminum.