Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:02:33 (278)

2000-10-10 15:02:33# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ekki hægt að ætlast til þess af mér eða okkur samfylkingarmönnum að við orðum till. til þál. fyrir vinstri græna. Og skýrum hvað fyrir þeim vakir með tillgr. Flm. tillögunnar verða auðvitað að orða hana sjálfir. Það liggur alveg ljóst fyrir. Hins vegar lít ég svo á að þessi orð hv. 1. flm. hér áðan séu viðurkenning á því að orðalagið, sem liggur fyrir í till. til þál. sem hann mælir fyrir, nái ekki yfir það sem vakir fyrir vinstri grænum að fá afgreitt hér á Alþingi heldur allt annað.

Þess vegna ítreka ég þau tilmæli mín að hv. þm. og félagar hans dragi einfaldlega tillöguna til baka og orði hana eins og þeir raunverulega meina.

Hv. þm. segir að stefna Samfylkingarinnar liggi ekki skýrt fyrir. Jú, hún liggur fyrir. Við erum ekki á því að Ísland eigi að standa utan efnahagsbandalaga og ríkjasambanda. Við erum á móti því. Við erum á móti því að Ísland einangri sig í heiminum. Það liggur alveg skýrt fyrir. Við viljum ekki taka þá u-beygju í utanríkisafstöðu Íslendinga að einangra okkur í heiminum. Við erum hins vegar fúsir og viljugir til að taka til alvarlegrar umræðu (Gripið fram í.) framtíð okkar í Evrópu. Við viljum að það mál verði rætt. Ef hv. þm. dregur tillögu sína til baka og umorðar hana t.d. svo að Alþingi kjósi sérstaka nefnd til þess að skoða kosti og galla aðildar landsins að Evrópusambandinu eða framtíð landsins í Evrópu, þá erum við reiðubúin að styðja það. Við viljum opna fyrir þá umræðu (Gripið fram í.) en við viljum ekki, eins og hv. þm., skjóta fyrst og spyrja svo, að Alþingi samþykki fyrst eins og hann vill að Ísland skuli ekki taka þátt í samvinnu ríkja eða efnahagssamstarfi og kjósi síðan nefnd til þess að skoða málið. Til hvers á að kjósa nefndina ef Alþingi er búið að taka afstöðuna áður?