Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:04:58 (279)

2000-10-10 15:04:58# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að þessi tillaga er þannig samsett að ef ég væri í skapi til að grínast svolítið hér á hinu háa Alþingi þá hefði ég sagt að Enver Hoxha hefði verið fullsæmdur af tillöguflutningi sem þessum.

Það er einfaldlega þannig að grunn... (Gripið fram í.) Fyrirgefðu, get ég fengið frið til að tala, hv. þm.? Grunnhugsunin í þessum tillöguflutningi snýst náttúrlega um einangrun og ekkert annað. Það hefur ekkert komið fram hér í máli hv. 1. flm. sem sýnir okkur fram á hvernig hann hyggist breyta EES-samstarfinu, sem hann vill jú halda í eins og fram hefur komið. En hvernig á að ganga til tvíhliða samninga við öll EES-ríkin? Það væri fróðlegt að fá það upplýst í þessari umræðu.

Hafi einhver þróun sett mark sitt á samskipti ríkja nú sl. hálfa öld, þá er það þróun í átt til nánari samskipta og viðskipta, samhliða gífurlegri aukningu í alls kyns alþjóðlegu samstarfi, bæði á sviði rannsókna, vísinda, menninga og lista, eins og þingheimi er auðvitað fullkunnugt um. Hér á landi er vaxandi umræða um hið svokallaða nýja hagkerfi og þýðingu þess fyrir stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu, tækifærin og hætturnar sem í því felast.

Því er ekki að neita, herra forseti, að það kemur mér einkennilega fyrir sjónir að tillaga sem þessi skuli flutt eins og sakir standa. Kjarni tillögunnar er, eins og hv. 1. flm. hefur lýst, að Ísland standi utan efnahagsbandalaga og ríkjasambanda en hafi við þau sem besta samvinnu með sérsamningum án aðildar.

Hafa hv. flm. þessarar tillögu kannað hvaða líkur eru til að slíkir sérsamningar náist? Ég held það væri fróðlegt innlegg í þessa umræðu.

Og áfram segir í tillgr., með leyfi hæstv. forseta:

,,Þannig verði sjálfstæð og óháð staða landsins nýtt til að treysta samskiptin við ríki og markaði beggja vegna Atlantshafsins og við aðra heimshluta.``

Sjálfstæði og óháð staða landsins eru markmið þessarar tillögu og enginn deilir um nauðsyn þess að hér búi sjálfstæð og fullvalda þjóð. En hverjum á hún að vera óháð? Er nokkurt ríki öðru óháð á okkar tímum? Væri þetta gagnlegt markmið í alþjóðlegum samskiptum og í utanríkisstefnu Íslendinga?

Nú er það svo, herra forseti, að við stöndum á aldamótaári frammi fyrir því mikilvæga verkefni að skilgreina stöðu okkar í samfélagi þjóðanna upp á nýtt. Endalok kalda stríðsins, aukin efnahagsleg og pólitísk samvinna býður auðvitað upp á byltingarkenndar breytingar á sviðum fjarskipta, viðskipta og samgangna og hafa fært okkur ný tækifæri, um það er engum blöðum um að fletta. Stærð ríkis ræður ekki úrslitum um framlag þess á alþjóðlegum vettvangi. Það held ég að flestum hér sé einnig að fullu ljóst. Fyrr í umræðunni hefur verið bent á að stærð ríkja í Evrópu hefur ekki haft slæm áhrif á stöðu þeirra innan Evrópusambandsins, þ.e. smáríkin hafa, ef eitthvað er, meira vald þar inni. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að Íslendingar hafi verið of uppteknir af smæð sinni í samskiptum við önnur ríki og við eigum fullt erindi í mikið og gott alþjóðlegt samstarf á ýmiss konar vettvangi, burt séð frá því hversu fjölmenn þjóðin er.

Mér virðist tillöguflutningur af þessu tagi ekki til þess fallinn að gera okkur auðveldara að gera okkur gildandi í samfélagi þjóðanna. Ýmislegt bendir til þess að hann geti gert okkur erfiðara fyrir í þeim samskiptum. Hv. 1. flm. nefndi það hér áðan að hæstv. utanrrh. hefði með málflutningi sínum, ég vona að ég hafi rétt eftir, herra forseti, grafið undan EES-samstarfinu. Mig fýsir að vita hver hv. 1. flm. heldur að viðbrögðin verði hjá ríkisstjórnum hinna EES-landanna verði tillaga sem þessi samþykkt á hinu háa Alþingi. Og hvort þar fýsi alla til flókinna tvíhliða viðræðna við Ísland.

Að lokum, herra forseti, sýnist mér að í grundvallaratriðum stangist sú sýn sem fram kemur í þessari tillögu á við sýn Samfylkingarinnar í utanríkismálum, sýn okkar á hver staða okkar er í alþjóðasamfélaginu og hvernig við viljum eiga samskipti við aðrar þjóðir, nær og fjær. Eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur bent á þá snýst tillagan um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Ég verð að segja, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, að kannski hefði verið einfaldara að fara í þessa umræðu út frá þeim forsendum.