Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:50:25 (295)

2000-10-10 15:50:25# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Innan verkalýðshreyfingarinnar eru mjög skiptar skoðanir um Evrópusambandið og þar eru ýmis viðhorf uppi, einnig um EES-samninginn. Ég þekki þó ekki það verkalýðsfélag eða samband sem hefur tekið formlega afstöðu til þessa máls á annan hátt en gert var á sínum tíma þegar samkomulagið um EES-samninginn var gert. Þá var öll verkalýðshreyfingin á Íslandi á einu máli um að fara ætti fram þjóðaratkvæðagreiðsla um EES-samkomulagið. Samkvæmt skoðanakönnunum sem þá voru gerðar var yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar á því máli, um 70--80% töldu að fram ætti að fara þjóðaratkvæðagreiðsla um EES-samkomulagið.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sat hins vegar í ríkisstjórn sem meinaði þjóðinni að ganga til atkvæða um þetta mikla hagsmunamál og það er miður. Þannig gekk hún þvert á vilja og óskir verkalýðshreyfingarinnar sem hafði tekið afstöðu á þennan veg.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur lagt sitthvað af mörkum í þessari umræðu. Aðallega sýnast mér það nú vera vífilengjur og útúrsnúningar og eftir því sem ég hef heyrt á máli annarra sem hafa tjáð sig í málinu virðast allir skilja þessa tillögu okkar nema hv. þm. Sighvatur Björgvinsson. En við skulum heyra hann taka til máls aftur.