Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:45:29 (329)

2000-10-10 17:45:29# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. segist því fylgjandi að efla samstarf okkar við Evrópuríkin og tvennt komi þar til greina. Annars vegar að styrkja EES-samninginn eða --- nú þori ég ekki að hafa eftir hinn kostinn --- (Gripið fram í: Eða aðild.) eða aðild að Evrópusamstarfinu. Í sumar lýsti hæstv. utanrrh. því yfir, það var haft eftir honum á síðum Morgunblaðsins ef ég man rétt, að hann teldi um það áhöld að EES-samningurinn þjónaði hagsmunum Íslendinga og margt sem benti til þess að hann mundi ekki gera það á komandi tíð.

Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh. beint út: Telur hann við þessar aðstæður rétt og eðlilegt að Íslendingar undirbúi umsókn um aðild að Evrópusambandinu?