Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 18:39:59 (342)

2000-10-10 18:39:59# 126. lþ. 6.5 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Að ástandið hafi batnað í Norður-Írak, ég þekki það ekki. Hitt þekki ég af lestri skýrslna frá Sameinuðu þjóðunum og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna að neyðarástand blasir við í landinu og hefur verið um árabil og hefur leitt til þess að á bilinu hálf milljón til hálf önnur milljón manna hefur látið lífið af völdum þessara refsiaðgerða. Í skýrslunni segja skýrsluhöfundar að menn deili um hve margir hafi fallið. En þeir segja: Við skulum ekki gleyma okkur í þeim deilum því staðreyndin er sú að af völdum viðskiptabannsins hefur orðið mikill mannfellir og það er alvarlegt mál. Við erum að eyðileggja heilt samfélag, segja þeir, án þess að harðstjóranum Saddam Hussein sé velt af valdastóli. Það eru allir sammála um að andæfa stjórn hans og enginn er að leggja blessun sína yfir stjórnarhætti hans. En við erum að taka undir með mannréttindasamtökum og þeim aðilum sem starfa á vegum Sameinuðu þjóðanna og nú síðast framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem hefur lýst yfir þungum áhyggjum af afleiðingum þessa viðskiptabanns.

Hæstv. utanrrh. sagði í umræðunni um Evrópumálin fyrr í dag að Íslendingar ættu að beita sér innan þeirra samtaka sem þeir störfuðu í, hvort sem það væri Evrópusambandið eða önnur samtök, og var með samlíkingu reyndar við Framsfl. líka í því efni. En látum það vera. Ég er sammála honum um að við eigum að beita okkur. Er ríkisstjórnin reiðubúin að beita sér á þá lund sem lagt er til í skýrslu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna?