Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 18:44:13 (344)

2000-10-10 18:44:13# 126. lþ. 6.5 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[18:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég spurði hæstv. utanrrh. hvort hann hefði lesið skýrslu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Nú hef ég sannfærst um að hann hefur ekki gert það. Hann segir að sér sé ekki kunnugt um að aðalritari Sameinuðu þjóðanna hafi gagnrýnt og lýst yfir áhyggjum (Gripið fram í.) vegna viðskiptabannsins því þar er skýrt tekið fram að upp á síðkastið hafi hann gert það og vísað er í skýrslu hans sem hann gaf öryggisráðinu 10. mars árið 2000. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr skýrslunni á ensku:

,,From within the United Nations, the Secretary-General himself has been at the forefront of the criticism, levelling serious charges against the sanctions regime in his report to the Security Council of 10 March 2000 (S/2000/208) and stating two weeks later that ,,the Council should seek every opportunity to alleviate the suffering of the population, who after all are not the intended targets of sanctions``.``

(Forseti (ÍGP): Má ég minna hv. þm. á að þegar hann vitnar í texta þarf leyfi forseta til þess.)

Ég biðst afsökunar á því. Ég hefði betur gert það. En hér kemur mjög skýrt fram að aðalritari Sameinuðu þjóðanna hafi lýst þungum áhyggjum yfir þeim afleiðingum sem þetta viðskiptabann hefur haft. Við skulum gá að því að aðalritari Sameinuðu þjóðanna er í mjög erfiðri stöðu gagnvart öryggisráðinu, hann er það. Hann er í mjög erfiðri stöðu gagnvart öryggisráðinu. En engu að síður hefur hann verið að setja fram þungar áhyggjur af þessu tagi.

Ég lýsi enn eftir því að Íslendingar og íslenska ríkisstjórnin sýni burði til þess, hafi burði til þess að taka undir með mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.