Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 18:59:43 (349)

2000-10-10 18:59:43# 126. lþ. 6.5 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[18:59]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Utanrrh. setur fingurinn á nákvæmlega það sem hlýtur að blasa við og bendir á það sem umræða er uppi um að kynslóðin sem er að alast upp í Írak hlýtur að hata vestræn ríki. Það er óhjákvæmilegt.

Mér hafa fundist svör utanrrh. ágæt og mér finnst að hann komi inn á þá umræðu, sem hlýtur að fara fram á Norðurlöndunum og í Evrópu, að ólík sjónarmið eru uppi.

Mér finnst mjög mikilvægt að Ísland sem rödd mannréttinda reyni að beina sjónum samstarfsaðila að því hvort eigi að grípa til annarra aðgerða en þeirra sem hafa ekki dugað. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að hér hefur komið fram að menn gera kröfu um að þessi tillaga komi til atkvæðagreiðslu á Alþingi og verði niðurstaðan sú að meiri hluti sé fyrir því að Ísland beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að grípa til annars konar aðgerða eða leita nýrra leiða eigum við að fara þessa leið. Ég hvet því til að þessi tillaga fái að koma til atkvæða eftir öll þessi ár, að við reynum að vera boðberar einhverra nýrra leiða. Við erum öll sammála um Saddam Hussein en þessi leið hefur ekki dugað til annars en skapa gífurlegar hörmungar í landinu og skapa hatur á vesturveldunum heima fyrir.