Sameining Búnaðarbanka og Landsbanka

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 13:36:37 (355)

2000-10-11 13:36:37# 126. lþ. 7.91 fundur 41#B sameining Búnaðarbanka og Landsbanka# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[13:36]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. nokkuð bjartsýnn ef hann telur að ég muni koma með yfirlýsingu hér á hv. Alþingi áður en fyrir liggur niðurstaða í málinu. Hann, sem sjálfur hefur verið ráðherra og þingmaður í fjölda ára, hlýtur að þekkja það vel til starfa að yfirlýsingar eru ekki gefnar fyrr en niðurstaða liggur fyrir. Þetta mál er, eins og hér hefur komið fram áður, í vinnslu og í sjálfu sér ekkert mikið meira um það að segja. Mér er kunnugt um ákvæði samkeppnislaga, hvernig þau hljóma og þarf ekki upplýsingar frá hv. þm. um það í sjálfu sér, en ég get sagt líka að mér finnst skiljanlegt að hv. þm. bryddi upp á þessu máli hér þar sem það hefur verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum og að mínu mati kannski óþarflega mikið miðað við stöðu málsins.