Samkeppni olíufélaganna

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:21:17 (379)

2000-10-11 14:21:17# 126. lþ. 7.2 fundur 18. mál: #A samkeppni olíufélaganna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Á þskj. 18 hefur hv. þm. Kristján Pálsson, 8. þm. Reykn., beint til mín eftirfarandi spurningum um samkeppni olíufélaganna:

Í fyrsta lagi: ,,Hvernig er háttað eftirliti samkeppnisyfirvalda með verðlagningu olíufélaganna á eldsneyti?``

Svarið er svohljóðandi: Hámarksverð á olíuvörum var numið úr gildi 1. apríl 1992. Frá þeim tíma hafa verðlagsyfirvöld og nú samkeppnisyfirvöld ekki haft bein afskipti af verðlagningu olíufélaganna.

Í öðru lagi: ,,Hafa samkeppnisyfirvöld haft einhver afskipti af verðlagningu olíufélaganna á olíu og bensín á bifreiðar og skip?``

Eins og fram kemur í svari mínu við fyrstu spurningu hefur verðlagning olíufélaganna verið frjáls frá 1. apríl 1992. Samkvæmt samkeppnislögum frá 1. mars 1993 þurfa að vera til staðar mjög ríkar ástæður til þess að samkeppnisyfirvöld grípi til íhlutunar í verðlagningu fyrirtækja og til þess hefur enn ekki komið.

Í þriðja lagi: ,,Hvaða skýring er á því að verð á olíu og bensíni er nánast það sama hjá öllum olíufélögunum?``

Svar: Á fákeppnismarkaði eins og olíumarkaðnum getur sama verð hjá olíufélögunum bæði verið til marks um að virk samkeppni ríki á markaðnum og að félögin hafi með sér samráð. Olíufélögin hafa alfarið hafnað því að þau hafi með sér samráð og annað hefur ekki verið sýnt fram á. Mér þykir rétt að taka fram að vegna hinna miklu verðhækkana sem orðið hafa á olíuvörum að undanförnu ritaði ég Samkeppnisstofnun bréf þar sem ég óskaði þess við stofnunina að verðlagning olíufélaganna verði athuguð og orsakir verðhækkananna skýrðar og jafnframt hvort um samráð kunni að vera þeirra á milli um verðákvarðanir. Vinna hefur þegar verið hafin við þessa athugun.