Alþjóðleg viðskiptafélög

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:32:02 (385)

2000-10-11 14:32:02# 126. lþ. 7.3 fundur 37. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Hvort sem litið er til tekjuskatta einstaklinga eða skatta á fyrirtæki er skatthlutfall hér á landi lægra en gerist víðast hvar erlendis. Það á við um Norðurlöndin og það á við um meðaltal innan OECD. Þetta gildir um hlutföllin. Síðan gegnir öðru máli um þær tekjur sem skattlagðar eru. Þetta gildir sem sagt um skatthlutföll.

Víða um heim er nú mikill þrýstingur á ríki að draga úr skattlagningu og hafa margir af því þungar áhyggjur að þessi þrýstingur verði til þess að veikja undirstöður samfélagsþjónustunnar sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum skattgreiðenda. Til þess að koma í veg fyrir þetta hefur verið hvatt til þess á alþjóðavettvangi að samræmingar sé gætt, reynt sé að sporna gegn samkeppni niður á við, þ.e. að ríkið keppist við að laða til sín atvinnurekstur með gylliboðum um lága skattheimtu. Af þessum meiði er baráttan gegn svokölluðum skattaparadísum, en þáltill. um það efni er á dagskrá þessa þingfundar og kemur væntanlega til umræðu á eftir.

Í skýrslum, m.a. frá OECD, þar sem fjallað er um þessi efni kemur fram að erfitt sé að setja einstökum ríkjum stólinn fyrir dyrnar í þessu efni en talað hefur verið um eins konar siðferðisþröskuld sem ríkið stígi ekki yfir, siðareglur, ,,code of conduct`` á enskri tungu. Í ljósi alls þessa vekja athygli tilraunir íslenskra stjórnvalda til að skapa fyrirtækjum, svokölluðum alþjóðaviðskiptafélögum, starfsumhverfi með sérstökum skattívilnunum. Gert er ráð fyrir því að þau greiði 5% skatt í stað 30% skatta sem öðrum fyrirtækjum er gert að greiða. Þau eru undanþegin stimpilgjöldum sem eru á bilinu 0,5--1,5%. Þau greiði ekki eignarskatt sem er 1,45% af nettóeign. Með öðrum orðum, þeim gert að greiða mun lægri og miklum mun lægri skatta en öðrum fyrirtækjum. Síðan hefur milljónum króna verið varið í sérstakt samstarfsverkefni með Verslunarráðinu til þess að hafa í frammi áróður fyrir þessu starfi.

Ég beini eftirfarandi spurningu til hæstv. viðskrh.:

1. Hver er staða samstarfsverkefnis ráðuneytisins og Verslunarráðs Íslands sem miðar að því að skapa svokölluðum alþjóðlegum viðskiptafélögum starfsumhverfi með sérstökum skattaívilnunum?

2. Hversu miklu fé hefur verið varið til þessa verkefnis og hvernig hefur því verið ráðstafað?

3. Hvernig samrýmist þessi vinna ákvæðum EES-samningsins um samkeppnismál?

4. Er þetta verkefni í samræmi við vinnu á vegum OECD sem miðar að því að uppræta sérstakar skattaívilnanir bæði innan OECD og utan?