Alþjóðleg viðskiptafélög

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 14:35:24 (386)

2000-10-11 14:35:24# 126. lþ. 7.3 fundur 37. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Með samþykkt laga um alþjóðleg viðskiptafélög í mars 1999 var boðið upp á nýjan möguleika í íslensku viðskiptalífi. Þar sem um nýjung var að ræða var ljóst frá upphafi að kynna þyrfti þessi nýju lög rækilega jafnt innan lands sem utan. Í greinargerð með lögunum kemur m.a. fram að markviss kynning á möguleikum alþjóðlegra viðskiptafélaga er lykilatriði þess að árangur náist, en slík kynning þurfi að fara fram bæði innan lands og erlendis.

Með samningi, dags. 13. apríl 1999, milli viðskrn., Verslunarráðs Íslands og Fjárfestingarstofu, almennt svið, var Verslunarráði Íslands og Fjárfestingarstofu falin kynning laganna og falið það hlutverk að leitast við að laða erlenda aðila til Íslands í því skyni að stofna alþjóðlegt viðskiptafélag í samræmi við lög nr. 31/1999. Í samningnum var nánar kveðið á um verkaskiptingu milli Verslunarráðs og Fjárfestingarstofu.

Samningur þessi er enn í gildi og á grundvelli hans hafa Verslunarráð Íslands og Fjárfestingarstofa kynnt þann möguleika sem lögin bjóða upp á jafnt innan lands og utan. Haldnir hafa verið kynningarfundir hér á landi, lögin hafa verið kynnt á fundum og ráðstefnum erlendis og umfjöllun um þau verið birt í fagtímaritum. Samningurinn er óbreyttur frá upphafi, en stefnt hefur verið að því að styrkir til kynningar laganna falli niður árið 2003.

Á árinu 1999 var 15 millj. kr. varið til kynningar laganna og sömu fjárhæð verður varið til kynningar í ár. Á næsta ári er fyrirhugað að framlag til kynningar verði lækkað í 10 millj. kr. og í 5 millj. kr. árið 2002. Árið 2003 er stefnt að því að úrræði það er lögin bjóða upp á verði orðið svo þekkt að ekki verði þörf á frekari opinberri kynningu. Auk þess hafa verið greidd nefndalaun vegna starfsleyfisnefndar sem starfar samkvæmt lögunum, en hún veitir leyfi og hefur eftirlit með starfandi félögum.

Lög um alþjóðleg viðskiptafélög hafa ekki áhrif á samkeppnisákvæði EES-samningsins. Ráðuneytinu hefur borist fyrirspurn Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um lögin um alþjóðleg viðskiptafélög þar sem óskað er upplýsinga um lögin og umhverfi þeirra og er verið að vinna að svari. Eingöngu er um almenna fyrirspurn að ræða og ekki hefur verið tekin nokkur ákvörðun um að taka lögin til skoðunar á vettvangi ESA, enda mundi slík athugun ekki beinast einangrað að Íslandi þar sem þekkt er að flest ríki Evrópu hafa í löggjöf sinni fjárfestingarhvata líkt og lögin um alþjóðleg viðskiptafélög.

Á vegum OECD er starfandi nefnd sem skoðar skaðlega skattasamkeppni. Með hugtakinu skaðleg skattasamkeppni er átt við að í tilteknu ríki sé að finna skattareglur eða skattalegt umhverfi sem laði að starfsemi með óeðlilegum hætti og rýri um leið möguleika annarra ríkja til tekjuöflunar. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að fara yfir þær skaðlegu skattareglur sem hugsanlega er að finna innan aðildarríkjanna.

Þann 26. júlí 2000 var samþykkt í ráðherraráði OECD skýrsla, ,,Report on Progress in Identifying and Eliminating Harmful Tax Practices``, þar sem m.a. er birtur listi yfir lög eða reglur ríkja sem geta hugsanlega talist fela í sér skaðlega skattasamkeppni. Grundvöllur skýrslunnar var yfirferð yfir lög og reglur ríkja sem taldar voru geta falið í sér skaðlega skattasamkeppni. Þannig var reynt að greina hvaða skattareglur einstakra ríkja feli í sér frávik frá eðlilegum skattareglum og leiði til þess að fyrirtæki kjósi að vera skattlagt í öðru ríki en eðlilegt væri miðað við starfsemi þeirra.

Lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, eru á meðal þeirra laga og reglna sem komið hafa til skoðunar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að lögin geti mögulega talist skaðleg. Þar ráði tveir þættir einkum úrslitum: Annars vegar hið lága skatthlutfall, þ.e. 5% samanborið við 30% almennt hlutfall. Hins vegar það að alþjóðleg viðskiptafélög eru að hluta girt af gagnvart innlendri atvinnustarfsemi þar sem alþjóðleg viðskiptafélög mega ekki eiga hluti í innlendu fyrirtæki. Af hálfu OECD er ætlunin að fara nánar yfir listann og því er ekki ljóst hvað verður á endanlegum lista yfir lög og reglur sem fela í sér skaðlega skattasamkeppni. Gert er ráð fyrir að sú endurskoðun taki um það bil eitt ár. Ekki er fyllilega ljóst hvað það hefur í för með sér fyrir Ísland að vera á listanum, enda verður það ekki ljóst fyrr en eftir um það bil ár hvaða ríki verða endanlega á honum og hvaða kröfur verða gerðar til þeirra ríkja. Nú eru 23 ríki af 29 aðildarríkjum OECD á listanum.