Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 11:53:56 (438)

2000-10-12 11:53:56# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[11:53]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það lá fyrir í gær þegar hér var rætt um viðveru ráðherranna í fyrirspurnatíma Alþingis, þegar þessir 12 manna ráðherrabekkir voru auðir að öðru leyti en því að iðn.- og viðskrh. var tilbúin að svara fyrir þrjár fyrirspurnir, að nokkuð margir ráðherranna væru erlendis og alveg ljóst að ríkisstjórninni gengur mjög illa að aðlaga sig að störfum þingsins. Ég vil taka undir það sem hér kemur fram, að þingið fer illa af stað. Við erum nýbyrjuð á þingönn. Það koma eiginlega engin stjórnarfrumvörp. Ráðherrarnir eru út og suður. Þegar ráðherrarnir geta ekki verið viðstaddir er það ekki óalgengt að formenn viðkomandi fagnefnda og meiri hluti viðkomandi fagnefnda reyni að vera hér og eiga viðræður um þingmál sem tekin eru fyrir. Því er heldur ekki að skipta á þessum morgni eins og komið hefur fram í máli þingmanns Samfylkingarinnar, Sighvats Björgvinssonar.

Það er því vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af því hvað upphaf þessa þings boðar okkur. Það er alveg ljóst að ráðherrum finnst aukaatriði hvort þeir mæta hér að öðru leyti en því að greiða atkvæði og þá fyrst og fremst þegar málin þeirra eru komin fram og komin á dagskrá og koma þarf þeim til nefndar til að afgreiða þau hratt og vel í gegnum þingið í málasúpunni fyrir jól. Þannig mun það verða nú þar sem engin frumvörp frá þeim eru komin svo skömmu áður en kjördæmavikan verður. Það er full ástæða til, herra forseti, að þessi mál verði tekin til gagngerðrar umræðu á fundi þingflokksformanna og forseta. Það getur ekki gengið að þingmannamálin, mikilvæg og stór eins og mörg þeirra eru, séu rædd án þátttöku stjórnarliða, án þátttöku ráðherra og eigi að síður færð til nefndar og verði þar lögð í dvala. Við viljum hafa öðruvísi vinnulag á hv. Alþingi. Við viljum að hér fari fram frjó samfélags- og þjóðfélagsumræða, að hér tali stjórn og stjórnarandstaða saman um það sem máli skiptir. Þannig er það ekki í upphafi þings 2000.