Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 12:03:55 (444)

2000-10-12 12:03:55# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[12:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem hér er til umræðu hefur komið fram í þinginu í tvígang áður án þess að verða útrædd, hvorki á 121. né 123. þingi. Ég tel því mikilvægt, herra forseti, að málið fáist útrætt að þessu sinni. En það voru þingmenn jafnaðarmanna sem fluttu málið í bæði skiptin og var það á síðasta kjörtímabili.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hefur komið með mjög gild rök fyrir því að farið verði í þá vinnu sem ályktunin fjallar um, þ.e. að gerðar verði ráðstafanir til að Ísland verði aftur aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu og að mótmæli Alþingis við hvalveiðibanni yrði hluti af þeirri ráðstöfun. Ég held að í ljósi þess sem hefur gerst frá því að þetta þingmál kom fram síðast sé það óhjákvæmilegt fyrir Íslendinga að ganga aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið því eins og 1. flm. málsins benti réttilega á að hvort sem við erum innan ráðsins eða utan erum við bundin af þeirri pólitík sem ráðið rekur. Þess vegna tek ég undir þær gagnrýnisraddir sem komu fram í umræðunni að það er afleitt þegar þeir ráðherrar sem málið varðar, bæði utanrrh. og sjútvrh., geta ekki verið viðstaddir þessa umræðu. En ég efast ekki um að þeir munu koma að umræðunni síðar því að ég geri ráð fyrir að menn geti verið sammála um þetta mál, sem a.m.k. miðað við þær raddir sem heyrst hafa í umfjöllun um það, því menn eru yfirleitt á þeirri skoðun að óhjákvæmilegt sé að ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið. Og einnig ef maður lítur til þess að Alþingi hefur samþykkt ályktun um að hefja hvalveiðar að nýju. Í ljósi þess þyrftum við auðvitað að skoða afstöðu okkar til Alþjóðahvalveiðiráðsins því að ef við ákveðum að fara að veiða hval er alveg ljóst að við mundum ekki geta losnað við afurðirnar á meðan við erum utan Alþjóðahvalveiðiráðsins, auk þess sem við eigum auðvitað að taka þátt í alþjóðasamstarfi, við eigum að taka þátt í alþjóðasamstarfi sem varðar þau málefni sem eru stór hluti af atvinnuvegum okkar og hafa þar einhver áhrif því að þegar við stöndum fyrir utan nær ekki rödd okkar að heyrast og við náum ekki að hafa áhrif á það hvaða pólitík er rekin.

Ég vil einnig benda á það sem kom reyndar fram í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, að það er líka annar þáttur sem við þurfum að skoða verulega í þessu samhengi og það er hvalaskoðunin sem er orðinn stór atvinnuvegur hér á landi og stækkar óðum. Við þurfum að skoða það hvort og þá hvernig hvalveiði og hvalaskoðun fari saman og við getum horft til reynslu Norðmanna og eigum að gera það. Það er því alveg ljóst að Alþingi þarf að taka afstöðu til þessara mála og það fyrr en síðar. Ég legg því til, herra forseti, að þessi tillaga fái skjótari og betri meðhöndlun í þinginu en hún hefur gert í fyrri skiptin sem hún hefur komið hér og málið verði afgreitt að þessari umræðu lokinni og umfjöllun nefndar.