Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 13:32:37 (458)

2000-10-12 13:32:37# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[13:32]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breyting á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991 og mig langar til að að segja örfá orð varðandi það mál. Það að þessi lög eru frá 1991 segir okkur að ýmislegt hefur gerst frá því ári og á einum áratug gerast hlutir í sambandi við viðskiptaheiminn sem þarf að bregðast við og það hefur verið reynt að gera í viðskrn.

Almennt vil ég segja um þessi lög að það er mjög neikvæð nálgun í þeim. Það finnst mér vera slæmt og nánast má segja að litið sé á erlenda fjárfesta eins og óvini ef maður les lagatextann. Þess vegna teljum við í ráðuneytinu mikilvægt að fara í gegnum þennan texta. Sú vinna er hafin þó ekki væri annað en að setja hann í það form að hann sé jákvæðari og aðgengilegri vegna þess að nokkuð góð samstaða er um það í þjóðfélaginu að erlend fjárfesting sé mikilvæg og hún verði kannski mikilvægari með hverju ári.

Varðandi það sem er fyrst og fremst til umfjöllunar sem varðar fjárfestingu í vinnslunni er það rétt sem kemur fram hjá talsmanni flutningsmanna að ákveðið ósamræmi er í lögunum í dag þar sem sumar greinar eru undanþegnar og aðrar ekki og má segja að ástæða sé til að fara yfir þann þátt málsins sérstaklega. Auðvitað er hægt að taka undir það líka sem kom fram í máli hennar að það er hægt að sjá fyrir sér ákveðið sóknarfæri sem mundi þá tengjast því að taka á þessu.

Það sem er náttúrlega stærsta málið í sambandi við erlendar fjárfestingar og hefur verið til umfjöllunar í þjóðfélaginu á síðustu vikum, en hv. þm. gerir ekki tillögu um í frv. sínu, er fjárfesting erlendra aðila í sjávarútveginum sjálfum, í útgerðinni. Ég tel mjög líklegt að sú nefnd sem er að störfum og starfar á ábyrgð hæstv. sjútvrh. um endurskoðun á fiskveiðistjórnarfyrirkomulaginu, taki það mál einnig til umfjöllunar. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til þess að við í viðskrn. vinnum að því máli einmitt núna en sætum færis þegar ljóst er hvað kemur út úr því nefndastarfi og munum þá hugsanlega fjalla frekar um það mál.

Almennt vil ég segja um þetta frv. að mér finnst alveg þess virði að það sé skoðað ítarlega og tel jákvætt að á Alþingi skuli skapast tækifæri til þess að ræða þennan þátt málsins en endurtek að lögin sem slík eru í endurskoðun í viðskrn. Ég reikna með því að seinna á þessum vetri verði lagt fram frv. af minni hálfu sem tekur a.m.k. á þeim þætti sem varðar lagatextann og það að gera hann aðgengilegri og jákvæðari.