Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:54:58 (475)

2000-10-12 14:54:58# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:54]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er síður en svo falin í því nokkur minnsta aðför að hæstv. viðskrh. eða neikvæð afstaða í hennar garð þó svo óskað sé eftir því að umræðunni verði ekki lokið fyrr en hæstv. utanrrh. verði viðstaddur. Þvert á móti tók ég það sérstaklega fram að samstarfið við hæstv. ráðherra væri til fyrirmyndar því hún kom sérstaklega til að taka þátt í umræðum um þetta mál og er það lofsvert.

Hins vegar er hæstv. utanrrh. ekki bara utanrrh., hann er formaður annars stjórnarflokksins og sem slíkur hefur hann gefið yfirlýsingu um að hann hafi skipt um skoðun í afstöðu sinni til fjárfestinga í sjávarútvegi. Verður ekki hlustað öðruvísi á orð hans en að túlka það svo að hann sé ekki aðeins sammála því að heimila erlendar fjárfestingar í fiskiðnaði heldur líka í sjávarútvegi, sem fellur undir þriðja ráðherrann, sjútvrh. (Gripið fram í.) Einnig er hann utanríkisviðskrh., það er rétt. Það er síður en svo neitt vantraust á hæstv. viðskrh. Það er mjög eðlilegt að við þessar aðstæður, þegar svona stór yfirlýsing kemur óvænt frá formanni annars stjórnarflokksins, sé óskað eftir því að umræðum verði ekki lokið fyrr en hann verður viðstaddur. Það er sjálfsagt mál að þingmenn þurfi að ræða þetta við hann og ástæða til að spyrjast fyrir um hvort þarna sé verið að marka nýja stefnu af hálfu ríkisstjórnarinnar eða bara Framsfl.