Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 15:28:02 (481)

2000-10-12 15:28:02# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. veit vel að það er fjöldi manns sem ekki er með greiðslur úr lífeyrissjóði. Við skulum bara bíða morgundagsins, á morgun koma staðtölur almannatrygginganna fram á aðalfundi Tryggingastofnunar ríkisins sem verður síðdegis á morgun og þá getum við haft það algjörlega á hreinu hversu margir það eru sem ekki eru með greiðslur úr lífeyrissjóði eða mjög litlar. Við vitum alveg hvernig staðan er hjá því fólki sem ekki er með greiðslur úr lífeyrissjóði.

Ég vil bara minna á það, herra forseti, að það eru allmargir sem hafa kannski verið stuttan tíma á vinnumarkaði þ.e. í hópi öryrkja sem hafa misst starfsgetuna snemma á lífsleiðinni, því miður. Við þurfum ekki annað en að horfa á slysatíðnina í umferðinni. Fjöldi ungmenna er á sjúkrahúsum og endurhæfingarstofnunum eftir hörmuleg slys. Þetta unga fólk á yfirleitt lítinn sem engan rétt í lífeyrissjóðum. Það þarf ekki annað en að nefna slík dæmi til að menn sjái að því miður er þó nokkuð af fólki sem þarf að treysta algjörlega á almannatryggingarnar.

Aftur á móti erum við að ræða um tekjutengingu við tekjur eða laun maka. Ég trúi því ekki, herra forseti, að hv. þm. sé ekki sammála mér í því að þetta sé hróplegt óréttlæti og brot á réttindum einstaklingsins og andstætt upprunalegri hugsun á almannatryggingunum, að tengja framfærslu einstaklingsins úr velferðarkerfinu, hans persónulegu tryggingu, við laun einhver annars sem alls ekki er hluti af hans tryggingu. Hvort hann sjái ekki að þetta er stórt réttlætismál sem þarf að taka á. Eða er hann e.t.v. ekki sammála hæstv. heilbrrh. sem hefur lýst því yfir að það sé siðferðisspursmál að leiðrétta þetta?