Fangelsismál

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:42:52 (735)

2000-10-18 14:42:52# 126. lþ. 13.4 fundur 99. mál: #A fangelsismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GÖ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Guðrún Ögmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir greinargóð svör þó að ég, eins og ég sagði í upphafi, gerði mér grein fyrir að þetta væri kannski fullveigamikil fsp. Hún má búast við að ég biðji um skriflegt svar við sömu spurningum þannig að málin verði skýrari.

Ég er mjög ánægð að heyra um uppbygginguna á Reykjavíkursvæðinu. Ég vildi gjarnan sjá áætlun um að á næstu tveimur árum eða svo komist móttakan, gæsluvarðhaldsvistin og annað í almennilegt húsnæði þannig að ekki þurfi að fara með fanga á Litla-Hraun vegna þessa.

En hjá mér vakna spurningar um meðferðardeildina. Ég tel að nú sé lag þar sem heil álma er laus á Litla-Hrauni. Það er spurning um hvort byggt hafi verið of hratt upp þar. En við megum heldur ekki horfa á þetta þannig að það þurfi 100% nýtingu eins og á hótelunum. Það væri alger della, við eigum ekki að gera það. En ég held að sem stendur væri gott að reyna að nýta þá álmu. Ég er þeirrar skoðunar og mjög margir sem hafa unnið að slíkri meðferð að það væri æskilegt að byrja fangavistina á meðferð og nýta tímann. Það er mjög algengt að fíkniefni séu notuð meðan á fangelsisdvölinni stendur, því miður. Það er ekki alltaf hægt að koma í veg fyrir það.

Ég vil líka gjarnan taka undir það sem hv. þm. Magnús Stefánsson nefndi varðandi ósakhæfa fanga og t.d. væri mikilvægt er að reyna að nýta þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi. Nú er ákveðið lag.

Ég var mjög ánægð með að heyra um meðferðina fyrir kynferðisafbrotamennina. Ég veit að hópmeðferð er ekki það úrræði sem gagnast þeim. Aðalatriðið er að tryggja að þeir fari --- ég vil meina að það eigi að skylda þá --- í einhvers konar einstaklingsmeðferð hvort sem þeir vilja eða ekki. Það mun samt sem áður nýtast þegar fram í sækir. Við erum farin að sjá gegnumgangandi í þeim málum að menn sem hafa fengið dóma áður eru settir inn aftur.

En ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin.