Skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:36:32 (761)

2000-10-18 15:36:32# 126. lþ. 13.6 fundur 36. mál: #A skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þar kemur fram að markmið laganna hafi ekki gengið eftir og eðlilegt að þau séu endurskoðuð. Í annan stað liggja upplýsingar sem ég óskaði eftir ekki fyrir en fram hefur komið að reynt verður að afla þeirra. Þetta er ágætt, en það segir sína sögu um þróun íslensks samfélags á liðnum árum að þegar Morgunblaðið, í fyrrnefndri úttekt á málinu, reynir að varpa ljósi á málið og stöðu þess, tekur blaðamaðurinn dæmi sem er svohljóðandi, með leyfi forseta. Þetta er úr Morgunblaðinu frá 1. október:

,,... einfaldast að taka dæmi af manni sem fyrir einhverjum árum eða áratugum lagði 2 milljónir í hlutafélag og selur nú hlut sinn á 100 milljónir. Maðurinn er því með 98 milljóna króna söluhagnað í höndunum.``

Síðan er viðfangsefnið þetta: Hvernig á að skattleggja þessar tekjur? Einstaklingurinn stendur frammi fyrir því að greiða fulla skatta af þessum tekjum eða nýta sér lögin og skjóta sér undan því að greiða af þeim skatta. Þetta er náttúrlega brot á allri almennri reglu í skattlagningu sem byggir á því eða á að byggja á því að skattar séu greiddir þegar verðgildi eignar hækkar eða í síðasta lagi þegar það raungerist í hendi eigandans. Einstaklingur sem aflar tekna með launavinnu sinni, við skulum segja 5 millj. króna sem hann ætlar að fjárfesta, á engan kost á því að fresta því að greiða skatta af þeim tekjum en fyrrnefnd hjón, sem eru með 98 milljónir á milli handanna, hafa lagaheimild til að fresta sköttunum. Þetta er ekki jafnræði og þetta er óeðlilegt. Þessu þarf að breyta og þessu á að breyta. Ég fagna því að hæstv. ráðherra segir að það sé nú í athugun hjá ríkisstjórninni að hafa forgöngu um það, auk þess hefur verið bent á að lagafrv. þess efnis liggur þegar fyrir þinginu.