Umferðarframkvæmdir í Reykjavík

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:45:53 (800)

2000-10-19 13:45:53# 126. lþ. 14.94 fundur 59#B umferðarframkvæmdir í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. ríkisstjórn þarf að finna sér skálkaskjól fyrir því að draga lappirnar í nauðsynlegum framkvæmdum þá er skálkaskjólið það að hér sé svo mikil spenna í efnahagslífinu. En á öðrum tímum þegar þarf að mæla gegn allri bólgunni og spennunni þá er engin hætta á ferðum. Hæstv. ríkisstjórn velur þess vegna vegagerðir og nauðsynlegar framkvæmdir í þeim.

En hvernig tekst hæstv. ríkisstjórn til við að draga úr þessari spennu, til að mynda með frestun framkvæmda? Tók ég ekki rétt eftir því að nýverið hefði hv. formaður fjárln., Jón Kristjánsson, tekið það fram að þeim hefði ekki tekist betur til en svo við gerð fjárlaganna að hér væri um að tefla aðeins 1% af útgjaldalið fjárlaganna?

Það hefur orðið bylting í íslenskum vegamálum á undanförnum árum og áratugum og spurningin er auðvitað sú, ef það á að draga úr spennu sem um munar, að fresta svo til öllum slíkum framkvæmdum í eitt, tvö ár. Komandi kynslóðir geta þá bætt það upp. En það eru tvö landsvæði þar sem vegagerð er hvað mest aðkallandi. Við ræddum í gær við hæstv. dómsmrh. um slysagildrurnar, um slysafaraldurinn á vegunum og um það fánýti sem hún hefur staðið fyrir í því sambandi, mest auglýsingar en svo kemur staðreyndin fram á fjárlögum þar sem dregið er úr framlögum til lögreglunnar. Í Reykjavík er þessi vá fyrir dyrum víða og eins varðandi Reykjanesbrautina. Þar þarf að herða á framkvæmdum. Það er harkalegt að menn skuli vera þeirrar skoðunar að viðhorf hæstv. ríkisstjórnar skapist af viðhorfum hæstv. forsrh., dr. Davíðs, til núverandi meiri hluta í Reykjavík.