Endurgreiðsla sjónglerja og linsa fyrir börn og unglinga

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:39:47 (836)

2000-10-19 15:39:47# 126. lþ. 14.13 fundur 105. mál: #A endurgreiðsla sjónglerja og linsa fyrir börn og unglinga# þál., Flm. PM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:39]

Flm. (Páll Magnússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um endurgreiðslu sjónglerja og linsa fyrir börn og unglinga. Tillagan er svo hljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrrh. að beita sér fyrir endurskoðun reglna um endurgreiðslu sjónglerja og linsa fyrir börn þannig að öll börn undir sjálfræðisaldri fái endurgreiddan hluta kostnaðar sjónglerja og linsa.``

Í gildandi reglum um þetta efni er kveðið á um að endurgreiðslur séu háðar því skilyrði að umsókn komi frá lækni. Endurgreiðslur koma því aðeins til greina að barn eigi við ákveðna augnsjúkdóma að stríða eða skilgreind sjónvandamál. Þannig er ekki um almennan fjárhagsstuðning vegna gleraugnakaupa að ræða heldur styrk vegna læknismeðferðar. Þau börn sem þurfa gleraugu til að koma í veg fyrir starfræna sjóndepru fá styrk, en nærsýn börn fá til að mynda enga styrki.

Á síðasta ári bárust Sjónstöð Íslands 1.556 umsóknir um endurgreiðslu sjónglerja og linsa. Kostnaður stofnunarinnar af þessu verkefni nam á síðasta ári um 12 millj. kr. að því er fram kemur í ársskýrslu hennar. Þrátt fyrir hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár hafa 16 og 17 ára börn ekki notið endurgreiðslna vegna sjónglerjakaupa. Sjón er í mótun til 12 ára aldurs og því kemur sú meginregla að styrkir séu einungis veittir í lækningaskyni í veg fyrir það.

Að hámarki er hverju barni veittur einn styrkur á 12 mánaða tímabili. Í flestum tilfellum dugir það, nema hjá yngstu börnunum þar sem vöxtur er hraðari en svo að ein gleraugu dugi þann tíma. Þetta þyrfti að endurskoða. Um 50--60% kostnaðar við kaup á sjónglerjum og linsum eru endurgreidd. Um fastar upphæðir er að ræða sem taka mið af eðli og gerð glerjanna.

Það gengur ekkert barn með sjóngler nema af illri nauðsyn, hvort sem sjónglerið er liður í læknismeðferð eða ekki. Kostnaður foreldra getur verið umtalsverður. Meðalgreiðslur Sjónstöðvar Íslands á síðasta ári námu 7.503 kr. en meðalaldur barna sem styrk hlutu var 11,6 ár. Ætla má að sjóngler barna endist mun skemur en fullorðinna, bæði vegna álags í leik þeirra og ekki síður vegna uppvaxtar.

Eins og kunnugt er taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði vegna almennra tannlækninga barna að 17 ára aldri. Auk öflugra forvarna sem Tryggingastofnun veitir greiða sjúkratryggingar 75% kostnaðar við almennar tannlækningar allra barna og unglinga 17 ára og yngri. Heyrnar- og talmeinastöð, sem starfar samkvæmt lögum nr. 35/1980, sér um úthlutun og viðhald heyrnartækja. Öll heyrnarskert börn sem hafa not af heyrnartækjum fá heyrnartæki og rafhlöður ókeypis til allt að 18 ára aldurs. Með hliðsjón af þátttöku ríkisins í tannlækningum barna og stuðningi þess við kaup á heyrnartækjum byggist sú hugmynd á sanngirni að stuðningur við kaup á sjónglerjum og linsum fyrir börn verði aukin og að hans njóti í framtíðinni öll börn án tillits til eðlis sjóngalla.

Herra forseti. Ég óska eftir því að tillögunni verði vísað til hv. heilbr.- og trn. að lokinni þessari umræðu.