Endurgreiðsla sjónglerja og linsa fyrir börn og unglinga

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:52:01 (839)

2000-10-19 15:52:01# 126. lþ. 14.13 fundur 105. mál: #A endurgreiðsla sjónglerja og linsa fyrir börn og unglinga# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér til að fagna þessari till. til þál. frá hv. þm. Páli Magnússyni. Ég ætlaði einmitt að benda honum á frv. til laga sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flm. að og við höfum flutt í tvígang áður á þinginu.

Þessi mál hafa þó nokkuð oft komið til umræðu, málefni þeirra barna sem bera mikinn kostnað af því að þau þurfa að nota gleraugu. Við vitum að oftar en ekki er það ættgengt og fleiri en eitt barn í fjölskyldu notar gleraugu. Þetta eru mikil útgjöld fyrir þær fjölskyldur sem eiga börn sem þurfa gleraugu. Lítil börn brjóta líka oft gleraugu sín og þurfa kannski mörg gleraugu á ári. Það er mjög óréttlátt hvernig almannatryggingakerfið kemur til móts við þessa foreldra.

Hér við þessa umræðu hefur verið bent á stuðning við þá sem eru heyrnarlausir eða heyrnarskertir og alls konar stuðningur er veittur vegna ýmissa fatlana. En börn sem þurfa á gleraugum að halda fá ekki sama stuðning.

Ég vil líka benda á að almannatryggingar, t.d. í Danmörku, styðja ekki bara börn heldur fleiri sem þurfa á gleraugum að halda. Þar veitir kerfið ákveðinn stuðning, ekki aðeins við sjóngler heldur einnig við gleraugnaumgjarðir þannig að full ástæða er til þess að þetta verði endurskoðað. Við höfum þess vegna ítrekað lagt til að ríkið taki þátt í kostnaði við gleraugnakaup.

Mig langaði aðeins, herra forseti, til að spyrja hv. þm. Pál Magnússon um afstöðu hans til þess að almannatryggingarnar tækju þátt í kostnaði vegna aðgerða til að laga sjóndepru. Nú er hægt að fara í aðgerð sem lagar sjóndepru þannig að menn geta gengið gleraugnalausir á eftir. Þetta eru dýrar aðgerðir, kosta um 250 þús. kr. á hvort auga. En þeir sem gangast undir aðgerðina þurfa hins vegar ekki á gleraugum að halda eftir það. Mér þætti fróðlegt að heyra afstöðu hans til greiðsluþátttöku vegna slíkra aðgerða.

Ég vil sérstaklega, herra forseti, fagna því að þessi þáltill. er komin frá þingmanni Framsfl. Ég geri ráð fyrir að vilji sé fyrir því í Framsfl. að farið verði í að taka þátt í þessum kostnaði. Ég mun sannarlega leggja mitt lóð á vogarskálarnar í hv. heilbr.- og trn. þegar þetta mál kemur þangað. Þegar frv. hv. þm. Samfylkingarinnar um sama mál kemur inn í nefndina þá fæst það væntanlega samþykkt og afgreitt úr nefndinni því að ég get ekki séð annað en meirihlutavilji hljóti að vera fyrir því í þinginu.