Svör við fyrirspurnum

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:46:36 (925)

2000-10-30 15:46:36# 126. lþ. 15.91 fundur 68#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hinn 12. október sl. lagði ég fram fsp. til hæstv. iðnrh. varðandi kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða. Ég spurði hvort það væri krafa ríkisins að andvirðið gengi upp í skuldir vegna félagslega íbúðakerfisins. Þessari fsp. er enn ósvarað.

Síðan þá virðist þetta mál hafa verið á fullri ferð. Samkvæmt fréttum í fjölmiðlum, m.a. í ítarlegri grein í Morgunblaðinu sl. föstudag, er þessa dagana gengið hart að sveitarfélögunum um að gefa svar um breytingu á eignarstöðu fyrirtækisins og sölu á hlut þeirra. Jafnframt kemur fram skýr krafa um að andvirðið renni til greiðslu skulda vegna félagslegra íbúða.

Herra forseti. Hver er réttur Alþingis og einstakra þingmanna til að fá svör við fsp. sem þessari áður en ákvarðanir eru teknar og alþingismenn sem og aðrir standa frammi fyrir gerðum hlut?

Í öðru lagi. Þegar mál sem þetta er formlega komið til umræðu á Alþingi, hefði þá ekki verið eðlilegt að hæstv. ráðherra beitti sér fyrir því að fresta frekari aðgerðum í málinu uns gefist hefði tóm til að svara fsp. á Alþingi?

Í þriðja lagi, herra forseti: Er ekki eðlilegt að sýna Alþingi þá virðingu að svara þeim fsp. sem bornar hafa verið fram hér í þingsölum en ekki í gegnum fjölmiðla?

Að lokum vil ég, herra forseti, beina því til hæstv. forseta að hann þrýsti á hæstv. ráðherra með að umræddri fsp. minni um Orkubú Vestfjarða verði örugglega svarað nk. miðvikudag.