Svör við fyrirspurnum

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:50:01 (928)

2000-10-30 15:50:01# 126. lþ. 15.91 fundur 68#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svar hennar. Þannig er að ég er með úrklippu úr Degi, frá 21. október. Þar er mynd af hæstv. fjmrh. og haft eftir honum að unnið sé að því að eignir sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða geti gengið upp í skuldir þeirra við félagslega íbúðakerfið. Þetta er allnokkru eftir að ég lagði fyrirspurn mína.

Hinn 13. október er líka sent bréf frá formanni stjórnar Orkubús Vestfjarða, sem er fulltrúi iðnrh., þar sem harðar er eftir því gengið og ítrekað þar, að sveitarfélögin svari þessu bréfi sem allra fyrst. Þar virðist þeim enginn griður gefinn og þetta er þó degi eftir að ég lagði fsp. mína fram.

Ég leyfi mér, herra forseti, að ítreka spurningar mínar: Eru þetta eðlileg vinnubrögð af hálfu hæstv. ráðherra þegar fsp. um málið er komin fram á hv. Alþingi? Ég tel að hægja hefði átt á aðgerðum og gefa þingmönnum kost á að tjá sig um þetta viðkvæma mál, a.m.k. áður en hart væri gengið að sveitarfélögunum með að skila svari. Þau eiga þá sennilega að vera búin að skila svari áður en fsp. er svarað hér á Alþingi.

Herra forseti. Ég vænti þess að fsp. minni verði svarað næsta miðvikudag.