Svör við fyrirspurnum

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:51:50 (929)

2000-10-30 15:51:50# 126. lþ. 15.91 fundur 68#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er einhver óskaplegur misskilningur á ferðinni hjá hv. málshefjanda. Sem stendur er unnið að lausn á fjárhagsvanda sveitarfélaga á Vestfjörðum. Sveitarfélög á Vestfjörðum eru sum --- ég tek fram að það á ekki við um þau öll --- í mjög miklum fjárhagsvanda. Við viljum aðstoða þau við það að leysa þann vanda. M.a. hefur komið til tals að koma eignum þeirra í Orkubúi Vestfjarða í verð, þ.e. líkt og fjárhagsvandi Siglufjarðar var leystur á sínum tíma þegar Rarik keypti veitustofnanir á Siglufirði.

Það er hverju orði sannara að skuldir sveitarfélaganna á Vestfjörðum eru m.a. vegna hins félagslega íbúðakerfis. Hugmyndin er ekki að taka Orkubúið til að borga þær skuldir upp í topp. Það er alls ekki hugmyndin og mikill misskilningur ef hv. þm. stendur í þeirri trú. Ætlunin er að gefa sveitarfélögunum tækifæri til að koma fjárhag sínum og skuldastöðu í það horf að hægt sé að reka þau.

(Forseti (GÁS): Forseti vill að gefnu tilefni rifja upp að hér er verið að ræða störf þingsins en ekki efnisatriði máls.)