Svör við fyrirspurnum

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:55:43 (931)

2000-10-30 15:55:43# 126. lþ. 15.91 fundur 68#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það var rétt þegar hv. síðasti ræðumaður sagði að þessi umræða snerti mörg mikilvæg atriði sem lúta að samskiptum Alþingis og framkvæmdarvaldsins. Enginn dregur í efa rétt þingmanna til að spyrja ráðherra spurninga með þeim formlega hætti sem þingsköp gera ráð fyrir eða skyldu ráðherra til að svara slíkum spurningum. Menn geta hins vegar ekki, með því að leggja fram einfalda fsp. á Alþingi, stöðvað framgang mála, komið í veg fyrir að framkvæmdarvaldið og handhafar þess geti unnið sín skyldustörf. Það er einhver grundvallarmisskilningur. Menn þyrftu að setja slík fyrirmæli í lög til þess að það gilti.

Ég vil bæta því við að ég hef ekki tjáð mig efnislega í fjölmiðlum um málið sem þingmaðurinn vakti athygli á. Ég hef hins vegar ekki neitað því að það mál væri á umræðustigi enda eðlilegt að maður svari aðspurður. Þessu máli verður svarað formlega í fyrirspurnatíma en það hefði verið fráleitt ef þeir ráðherrar sem að þessu máli koma hefðu lagt hendur í skaut og beðið eftir því að þingmaðurinn fengi svar við fsp. sinni hér á Alþingi. Ég skil ekki hvernig mönnum dettur það í hug. Þetta minnir dálítið á tillögu hv. þm. við umræðu um fjárlögin, um að fresta hefði átt fjárlögunum vegna þess að ekki voru komnar tillögur um fjárhagsvanda sveitarfélaganna. (JB: Já, það held ég að sé hárrétt.)