Bætt réttarstaða barna

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 16:32:07 (990)

2000-10-31 16:32:07# 126. lþ. 16.9 fundur 115. mál: #A bætt réttarstaða barna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessar tillögur eiga eftir að fara til meðferðar og umfjöllunar í hv. allshn. og til umsagnar þar. Það má vel vera að betur þurfi skoða samræmi í dagsetningum í tillögunum, annars vegar um að niðurstöður og úrbætur að því er varðar barnasáttmálann eigi að liggja fyrir 1. maí 2002 og hins vegar að framkvæmdaáætlun á að vera tilbúin 1. janúar árið 2001. Það má vel vera að skoða þurfi samræmið í þessum dagsetningum. Ég get hins vegar ekki séð að þessar tillögur geti ekki staðið sjálfstæðar en það er þá nefndarinnar sem fær málið til meðferðar að skoða það.

Ég ítreka enn að ég fór vandlega yfir þetta með umboðsmanni barna og niðurstaða okkar var að betur færi á því að þessar tillögur væru afgreiddar hvor í sínu lagi.