Bætt réttarstaða barna

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 16:33:28 (991)

2000-10-31 16:33:28# 126. lþ. 16.9 fundur 115. mál: #A bætt réttarstaða barna# þál., Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég er afskaplega ánægð með viðbrögð formanns allshn. en vil aðeins bregðast við þeim athugasemdum sem hún gerði hér í andsvörum við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sérstaklega varðandi það hvort heildarstefnumörkun í málefnum barna mundi ná yfir þá till. til þál. sem hér er flutt.

Mér fannst ekki ástæða til þess á sínum tíma, ekki heldur á þessu hausti, að við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir samræmdum þessar tillögur. Ég vil gjarnan fá tækifæri til að útskýra það. Ég hef farið yfir það hve mörg aðskilin mál Samfylkingin hefur flutt varðandi umbætur í málefnum barna. Það væri líka hægt að segja að tillagan um að fara yfir barnasáttmálann til að bæta réttarstöðu barna og gera úrbætur í öllum íslenskum lögum tæki yfir aðskilin mál. Þess vegna gæti ég svarað hv. formanni allshn. þannig að ef allshn. mundi ákveða að styðja málið og beina því til Alþingis að samþykkja stefnumörkun í málefnum barna þá væri það ekki mikið verk fyrir allshn. að taka inn í þá samþykkt tillögu um að þá verði farið yfir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

En það er líka hugsanlegt, af því að við í stjórnarandstöðu vitum að við þurfum að þoka málum fram, að hv. allshn. mundi íhuga að samþykkja þetta mál en ekki vera tilbúin í heildarstefnumörkun. Þá næðist a.m.k. sá ávinningur að farið yrði að skoða barnasáttmálann. Ef allshn. fellst á að það sé ástæða til að búa til heildarstefnumörkun þá held ég að Samfylkingin yrði því mjög fylgjandi að getið yrði þeirra mála sem mikilvægt er að taka á og sem ég hef drepið á hér. Samfylkingin beitir sér fyrir úrbótum í þessum málaflokki og leitar allra leiða til þess. Það er svar mitt til formanns allshn. En það sem gladdi mig varðandi andsvar hennar var að mér fannst gæta jákvæðni í orðum þingmannsins. Það gefur mér tilefni til að vona að eftir nokkurra ára tilraunir sé kannski von til að þessi góðu mál verði samþykkt á þessu þingi.

Þá komum við að gildistökuákvæðinu. Það er alveg hárrétt. Ég breytti gildistökuákvæðinu í tillögunni sem ég er að flytja vegna þess að ég gekk út frá því að ef þessi tillaga yrði samþykkt þá yrði það ekki fyrr en undir vorið, það er reynslan af því þegar stjórnarandstaðan fær tillögur samþykktar. Með því vildi ég gefa stjórnarflokkunum tækifæri til að vinna þessa vinnu áður en hún yrði lögð fyrir þingið. Allt þetta má samræma og laga ef allshn. ákveður að hleypa tillögunum í gegn og gera þetta sem best.

Hitt er svo annað mál, af því ég notaði samanburð við Norðurlönd máli mínu til stuðnings og fór yfir þær töflur sem fylgja þáltill. varðandi barnasáttmálann, að við erum miklir eftirbátar Norðurlandanna. Við þurfum að taka okkur á í mjög mörgum málum. Ég fór bara örstutt yfir það í framsögu minni og nefndi aðeins samanburðartölur. Ef við reynum hins vegar að finna í hverju mismunurinn felst þá er ljóst að þar til við breyttum lögunum um fæðingarorlof á sl. vori og tókum þar með ágætt skref fram á við, þó enn þurfi að gera betur til að ná Norðurlöndunum, þá vorum við sl. vetur hálfdrættingar á við það sem lakast var annars staðar á Norðurlöndunum. Auðvitað hefur það lagast örlítið en þetta segir nokkuð mikið um útkomuna úr þeim samanburði.

Varðandi fæðingarorlofsgreiðslur til feðra. Það voru 1.112 feður sem fengu fæðingarorlofsgreiðslur á síðasta ári. Sex fengu aðeins styrkinn, en fjórir fengu hálfa dagpeninga að auki en 1.102 fengu fullar greiðslur. Þetta er auðvitað sáralítið í samanburði við þróunina annars staðar á Norðurlöndunum því lifandi fædd börn voru á árinu 1997 4.151. Við höfum ekki tölur frá árunum 1998 eða 1999 en fæðingartíðnin hefur verið áþekk að undanförnu þannig að það er um fjórðungur feðra á þessum tíma sem tekur fæðingarorlof.

Við í Samfylkingunni höfum mótað stefnu varðandi fæðingarorlof. Við teljum að það eigi að verða tólf mánuðir á fullum launum, það verður auðvitað að vinnast í áföngum, og að foreldrar skipti orlofinu með sér. Um það var samþykkt ákveðið skref hér síðasta vetur.

Ef við skoðum aðbúnað á íslenskum vinnumarkaði þá er hann því miður fjölskyldufjandsamlegur. Ísland þráaðist t.d. við að samþykkja samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í fimm ár var ýtt á það með málflutningi og tillögum að fullgilda þá samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að óheimilt sé að segja starfsmanni upp vegna fjölskylduábyrgðar. Loksins á sl. vori tosaðist þetta fyrst inn í tillögu um fjölskyldustefnu og síðan var málið borið hér fram, eftir fimm ára málflutning og fyrirspurnir. Stjórnarflokkarnir hafa þannig ekki hlaupið til að gera þær úrbætur sem mikilvægar eru.

Hlutfall svokallaðra hinsegin fjölskyldna hefur hækkað mikið síðari ár, t.d. hafa hjónaskilnaðir þrefaldast á síðustu 35 árum. Aðrar tegundir fjölskyldna hafa fengið viðurkenningu á síðustu árum og það er hlutverk okkar, löggjafans, að fylgjast með og aðlaga lög og rétt að þessum nýja veruleika. Sambúðarslit og skilnaðir eru um 1.300 á hverju ári og í um 59% tilvika eru börn í dæminu, þannig að árlega missa 1.140 börn á um 760 heimilum annað foreldri sitt út af heimilinu. Hvers lags samfélagsmynd erum við að draga upp?

Það hefur oft komið fram í umræðu hér að börn einstæðra foreldra eru fjárhagslega verr stödd en börn hjóna og sambúðarfólks. Þetta kemur fram í minni möguleikum þeirra til að stunda ýmiss konar nám, tónlistarnám, tómstundir ýmsar, íþróttir og dans, t.d. ballettiðkun. Margt væri hægt að tína til þar sem þessi börn standa verr að vígi. Það er hlutverk stjórnvalda, a.m.k. ef þau bera einhverja virðingu fyrir sinni pólitísku stefnu, að skapa jöfnuð meðal þessara ungu íbúa landsins. Þess vegna verður bæði að skoða skattbyrðina, barnabæturnar, meðlagsgreiðslurnar og feðra- og mæðralaunin. Auðvitað kemur það meira inn í heildarstefnumörkunina en barnasáttmálinn sem er réttindamál.

Í mínum þingflokki höfum við sérstaklega verið að skoða skilnaðarfjölskylduna á undanförnum missirum. Þeir sem fylgjast með málflutningi okkar og tillöguflutningi hafa séð það. Við höfum skoðað löggjöfina út frá stöðu allra einstaklinganna sem tilheyra fjölskyldunni og flutt mörg þingmál sem miða að því að bæta aðbúnað barnanna og jafna stöðu kynjanna. Staðan er t.d. þannig í dag varðandi forsjá barna að af 8.665 einstæðum foreldrum í landinu fara um 8.100 konur með forsjá tæplega 12.000 barna en 573 karlar fara með forsjá 700 barna. Þetta eru mjög athyglisverðar tölur. Það lætur nærri að konur fari með forsjá barna sinna í 98% tilvika. Sem betur fer gera foreldrar samkomulag um forsjá í flestum tilvikum því aðeins lítill hluti skilnaðarmála fer út í forsjárdeilur, kannski 25--30 tilvik á ári. En ef ágreiningur rís milli foreldra þá á dómsmrn. að leysa úr ágreiningnum. Í lögunum standa foreldrar jafnir en sagt er að við úrlausn ágreiningsmála um forsjá skuli ávallt miða við það sem barni er fyrir bestu.

Þegar forsjárdeila kemur til úrlausnar er byrjað á að taka afstöðu til þess hvort foreldrar séu hæfir til að fara með forsjá. Raunin er sú að í flestum forsjármálum eru báðir foreldrar taldir hæfir til að fara með forsjána og valið er því á milli foreldra út frá framtíðarhagsmunum barnsins.

Eins og ég sagði áðan verða um 1.100 börn skilnaðarbörn á ári hverju. Undanfarin ár hafa börn fædd utan hjónabands verið um 450 og alls er greitt meðlag með um 13.500 börnum í landinu. Samkomulag er um umgengni í 85--90% tilvika en það kemur heldur ekki á óvart að 70% þeirra erinda sem berast sýslumanni eru frá forsjárlausu foreldri og þá oftast feðrunum. Um þetta hefur m.a. karlanefnd Jafnréttisráðs fjallað og stöðu feðra í þessum málum.

Það er afskaplega lítið hægt að gera þegar brotið er gegn umgengnisrétti á hvorn veginn sem það er. Við í Samfylkingunni höfum flutt mál á þinginu um að bæta réttarstöðu barns til umgengni við báða foreldra og lagt til að komið verði á fót endurgjaldslausri vandaðri ráðgjöf fyrir alla þá sem hyggjast skilja eða slíta óvígðri sambúð. Við viljum að sett verði í lög að skipa skuli barni talsmann um leið og ágreiningur kemur upp á milli foreldra. Það er full ástæða til að í forsjármálum og ágreiningi um umgengni sé skylda að setja barni talsmann.

[16:45]

Ég er að drepa á örfá mál þar sem þarf mjög að taka á og sem yrði tekið á í heildarstefnumörkun í málefnum barna. Réttindamálin og það að tryggja barni rétt er það sem barnasáttmálinn kveður á um og auðvitað skarast þessi mál á ákveðinn hátt.

En við í Samfylkingunni munum áfram freista þess að knýja á um að sett verði heildarstefnumörkun í málefnum barna, að barnasáttmálinn verði skoðaður og íslensk lög til að tryggja að við séum í raun að fullgilda hann í okkar lögum. Og ef þetta dugir ekki þá munum við flytja aftur og aftur í aðskildum þingmálum, ýmist tillögum eða í frumvarpsformi, úrbætur um hvert einstakt mál sem við vitum að brennur mjög á eins og komið hefur fram í umræðunni. Læt ég þar með máli mínu lokið, herra forseti.