Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:29:59 (1001)

2000-10-31 17:29:59# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., Flm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir þá lærðu ræðu sem hann flutti um þetta mál og tel hann sýna málinu sem slíku mikla virðingu. Hins vegar verð ég að segja að ég var ekki að öllu leyti sammála honum um málið eins og gefur að skilja.

[17:30]

Mér finnst vanta í málflutning hv. þm. að hann skýri út af hverju hann telur sæma, út frá heilsufarssjónarmiðum, að menn hefji vinnu klukkutíma fyrr á sumrin en þeir gera á vetrum. Af hverju er það svo miklu betra fyrir heilsuna en að færa klukkuna og vakna klukkutíma fyrr eftir henni? Menn eru á nákvæmlega sama hátt að hringla með svefn- og vökutíma með því að hefja vinnu klukkustund fyrr á sumrin, bara með því að ákveða að byrja fyrr.

Í annan stað. Hvernig stendur á því að krakkar verða ekki allir kolvitlausir þegar skólar hefjast á haustin og þau þurfa að vakna snemma á morgnana til að komast í skólann á réttum tíma? Ekki virðist það hafa nein sérstök áhrif á geðheilsu íslenskra barna þótt svefnvenjur og vökuvenjur breytist þegar skólar hefjast.

Þriðja spurning: Hefur hv. þm. einhverja hugmynd um eða tölur sem staðfesta það að geðheilsa Íslendinga hafi almennt batnað 1968 þegar hætt var að breyta klukkunni? Ég hygg að það sé nú ansi djúpt á slíkar tölur.

Síðan held ég, til að kóróna allt saman, að það séu ekki sérstök vandræði með skipströnd eða neitt slíkt í Evrópu þegar sumartími er tekinn upp, þrátt fyrir að breyta þurfi flóðatöflum og færa slíkt til.

Síðast en ekki síst, af því að hv. þm. fann að gildistímanum og nefndi að búið væri að prenta allar flóðatöflurnar. Ef eina vandamálið varðandi frv. er gildistíminn þá held ég að það sé létt að koma til móts við hann í þeim efnum.