Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:36:47 (1005)

2000-10-31 17:36:47# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:36]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar sem mjög hefur talað gegn því frv. sem hér er flutt, um að breyta klukkunni, að hann gerði mikið úr því og velti fyrir sér hvort við flutningsmenn værum hér að hugsa um hagsmuni viðskiptalífsins fremur en hagsmuni almennings. Það hefur komið fram hjá hv. 1. flm. að hagsmunir viðskiptalífsins og almennings fari saman.

En ég vildi leyfa mér að spyrja hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, þm. Sjálfsfl. í Reykjavíkurkjördæmi: Er það eitthvað voðalega slæmt ef hagsmunum viðskiptalífsins væri eitthvað betur borgið með því að breyta klukkunni og taka upp sumartíma í samræmi við það sem er hjá öðrum Evrópuþjóðunum eins og við erum hér að leggja til? Er það eitthvað slæmt? Er eitthvað slæmt við það að viðskiptalífið hefði hag af því?