Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:55:38 (1013)

2000-10-31 17:55:38# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:55]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það gætir misskilnings í máli hv. þm. Kristjáns Möller varðandi það að ég hafi sagt að það væri vísindalega sannað að auðveldara væri að kenna börnum að morgni en um eftirmiðdag. Ég sagði einungis að það þekkja allir sem starfað hafa í skólum að það er erfiðara að kenna börnum klukkan átta að morgni heldur en fjögur um eftirmiðdag. (Gripið fram í.)

Sannleikurinn er sá að það er ekki svo langt síðan við vorum sjálf nemar í skólum og við eigum örugglega þá reynslu sameiginlega að það var æðioft erfitt að vakna á morgnana eftir 1968. Sjálf hef ég kennt. Ég hef reyndar aldrei kennt í samfellu eins og hv. þm. Kristján Möller, aldrei haft efni á því. En ég hef kennt að morgni og ég veit að í mínu fagi hefur verið mun erfiðara að fá heilann til að virka hjá börnum og ungmennum snemma að morgni heldur en um miðjan dag. Og ég tala einungis af reynslu en ekki af neinu sem ég get sagt að sé vísindalega sannað, enda sagði ég það ekki.

Varðandi hina spurningu hv. þm. um geðheilsu fólks þá held ég jafnvel að ég hafi ekki einu sinni nefnt geðheilsu í ræðu minni. Ég talaði hins vegar um að samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram frá svefnrannsóknum Landspítalans séu miklar líkur á því að geðheilsan gæti jafnvel versnað heldur en hitt við þessa breytingu.

Spurning hv. þm. um það hvort geðheilsa fólks hafi skánað frá og með 1968 þegar breytingin var gerð, þá höfum við auðvitað ekkert um það á pappírum. En ég vísa bara til orða hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar sem sagði áðan að lesendabréfunum til dagblaðanna hefði þó fækkað með kvörtunum um hringlið í klukkunni, þ.e. fólk varð mjög sátt við að hætt væri að hringla með klukkuna.