Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:59:39 (1015)

2000-10-31 17:59:39# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:59]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held fyllilega ró minni þó vinir mínir í útlöndum hringi stundum til mín á einhverjum tíma þegar ég er að fá mér lúr. Ég held líka fyllilega ró minni og vinir mínir í útlöndum gera það líka þó það hendi að ég hringi til þeirra án þess að hafa áttað mig á að reikna út tímamuninn, sem ég reyndar tel mig alltaf muna eftir.

Ég vil bara segja sem svo: Íslendingar njóta ákveðinnar sérstöðu á við aðrar þjóðir. Við búum í miðju Atlantshafinu, norðarlega, norður við ysta haf. Það er hluti af sérstöðu okkar sem þjóðar og það er hluti af þeim skemmtilega karakter sem erlendir ferðamenn upplifa við að koma til landsins. Það er hluti af því að vera öðruvísi en aðrar þjóðir (Gripið fram í.) og það er hluti af því að hafa spennandi einkenni að við erum ekki á sama tíma og lönd annars staðar á jarðkúlunni.

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan að þessi tillaga jaðrar við að vera svipuð því að menn væru að leggja til að hnattstaða Íslands væri önnur en hún er.