Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:19:39 (1017)

2000-10-31 18:19:39# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:19]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði lagt eyrun við þegar 1. flm. þessa máls ræddi um þetta frv. þá hefði hann heyrt það að hann lagði mjög ríka áherslu á að ætlunin væri ekki að breyta sólarganginum heldur værum við að stilla okkur saman þannig að við mundum hefja vinnu á sama tíma og hætta á sama tíma. Við tækjum daginn fyrr og mundum nýta birtuna og ylinn, eins og hann komst að orði.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði líka um þrönga viðskiptalega hagsmuni. Eru hagsmunir ferðaþjónustunnar þröngir viðskiptalegir hagsmunir? Það hefur komið fram í umsögn frá ferðaþjónustunni að ferðaþjónustan mundi njóta góðs af. Þar tel ég að miklir hagsmunir séu í húfi.

Einnig hefur töluvert verið rætt um skólagöngu. Við megum ekki gleyma því að á Íslandi er mikið skammdegismyrkur og yfir þrjá mánuði, háveturinn eru flest börn á leið til skóla í myrkri. Þá skiptir ekki máli hvort þau leggja af stað klukkutíma fyrr eða seinna. Ég vil einnig segja frá því að börn sem búa á landsbyggðinni og eiga langan veg í skóla, þau eru oft lögð af stað í skólann um klukkan sjö á morgnana. Ég er alveg sannfærð um það og veit að börn eru miklu næmari og læra betur snemma á morgnana en þegar líða tekur á daginn.